Framtíðarlandið vill í vetur beita sér fyrir sérstakri vitundarvakningu meðal almennings um Árósasamninginn, og boðar af því tilefni til fræðslu- og umræðufundar um samninginn og hugsanlegar afleiðingar af upptöku hans. Fundurinn hefst klukkan 17:00 fimmtudaginn 27. september og verður haldinn á fjórðu hæð í Iðusölum, Lækjargötu.

Mörg ríki heims standa nú frammi fyrir því hvernig eigi að skilgreina lagalega hagsmuni almennings og félaga sem starfa að umhverfis- og náttúruvernd. Í mörgum löndum hefur verið farin sú leið að viðurkenna að umhverfis- og náttúruverndarsamtök hafi það hlutverk að gæta hagsmuna almennings í þessu tilliti og þeim hefur í ákveðnum tilvikum verið tryggður réttur til þess að fá ákvarðanir sem áhrif hafa á umhverfið endurskoðaðar fyrir æðra stjórnvaldi og dómstólum.

Árósasamningurinn fjallar um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Á fjórða tug ríkja í Evrópu eru aðilar að samningnum, og öll Norðurlöndin hafa fullgilt hann - en ekki Ísland. Í umhverfisstefnu Samfylkingarinnar er lýst vilja til að staðfesta Árósasáttmálann, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, hefur að sama skapi lýst yfir að hún muni beita sér fyrir fullgildingu samningsins.



Með fullgildingu Árósasamningsins myndu möguleikar umhverfis- og náttúruverndarsamtaka aukast mjög. Fullyrða má að deilurnar um Kárahnjúkavirkjun hefðu tekið á sig aðra mynd í slíku umhverfi, og jafnvel hefði málið farið á allt annan veg. Samtök á borð við Sól í Straumi hefðu átt heimtingu á fjárframlögum á meðan á kosningabaráttunni um stækkun álversins í Straumsvík stóð í Hafnarfirði.

Ræðumaður kvöldsins verður Aðalheiður Jóhannsdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur í umhverfisrétti. Hún mun lýsa helstu skuldbindingum Árósasamningsins og setja fram sjónarmið um hvernig innleiða beri samninginn í íslenskan rétt verði af fullgildingu hans.

Í pallborði sitja eftirtaldir:

  • Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands
  • Pétur Óskarsson, atvinnurekandi og stjórnarmaður í Framtíðarlandinu
  • Sigþrúður Jónsdóttir, náttúrufræðingur og stjórnarmaður í Náttúruverndarsamtökum Suðurlands

Fundarstjóri er Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í grasafræði við HÍ.

Texti Árósarsamningsins á ensku .

Birt:
24. september 2007
Höfundur:
Framtíðarlandið
Tilvitnun:
Framtíðarlandið „Fræðslu og umræðufundur um Árósarsamninginn “, Náttúran.is: 24. september 2007 URL: http://nature.is/d/2007/09/24/frslu-og-umrufundur-um-rsarsamninginn/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 25. september 2007

Skilaboð: