Athugasemdir vegna auglýsingar um skipulagsbreytingu Ölfuss þar sem gert er ráð fyrir stóraukinni sókn Orkuveitu Reykjavíkur í verðmæta náttúru með tilheyrandi fórnum á náttúruverðmætum, landslagi og loftgæðum.

Náttúruverndarsamtök Íslands leggjast gegn auglýstri skipulagsbreytingu þar sem gert er ráð fyrir stóraukinni ásókn í orkuauðlindir á Hengilssvæðinu með tilheyrandi fórnum á stórbrotinni náttúru svæðisins. Náttúruverndarsamtök Íslands hafa lagst eindregið gegn frekari virkjunum á svæðinu og þá einkum og sér í lagi virkjun við Ölkelduháls gjarnan kennd við Bitru.

Á annað þúsund manns gerðu alvarlegar athugasemdir við þegar sveitarfélagið auglýsti skipulagsbreytingu þar sem gert var ráð fyrir sams konar virkjun á miðju ári 2008.  Afgreiðslu þeirrar tillögu var á þeim tíma slegið á frest af hálfu sveitarfélagsins og athugasemdunum því enn ósvarað.

Náttúruverndarsamtök Íslands skora á sveitarstjórn Ölfuss að taka þær athugasemdir nú til efnislegrar umfjöllunar og afgreiðslu.

Hin auglýsta skipulagsbreyting felur í sér bætt aðgengi Orkuveitu Reykjavíkur að orkulindum. Náttúruverndarsamtök Íslands benda á að sveitarfélagið hefur þegar skuldbundið sig til þess að greiða fyrir skipulagsmálum til handa því fyrirtæki. Þannig segir í 2. gr. samkomulags OR og Ölfuss: „Bæjarstjórn Ölfuss veitir framkvæmdaleyfi og greiðir fyrir skipulagsmálum eins hratt og unnt er vegna umræddra framkvæmda ...“ Í ljósi þessu samkomulags hlýtur sveitarfélaginu að vera ómögulegt, eða í það minnst afar erfitt, að ganga í skipulagi sínu fram með öðrum hætti en þeim sem hentar Orkuveitu Reykjavíkur. Við þessar aðstæður er sveitarstjórn ómögulegt að taka á framkomnum athugasemdum með hlutlægum hætti gangi þær gegn hagsmunum Orkuveitur Reykjavíkur.

Mengun af völdum brennisteinsvetnis er nú þegar til vandræða og á liðnum vetri var á köflum viðvarandi loftmengun í Reykjavík. Þannig mældist mældist sólahringsmeðaltal brennisteinsvetnis við mælistöðina Álalind jafn heilsuverndarviðmiði WHO (Alþjóða
heilbrigðismálastofnunin) eða 150µg/m3. Sólahringsmeðaltal brennisteinsvetnis hefur aldrei fyrr mælst við þessi mörk í byggð á höfuðborgarsvæðinu. Þó ekki þurfi að óttast bráðaáhrif af þessum styrk er rétt að hafa í huga að langtímaáhrif brennisteinsvetnis í lágum styrk á heilsu fólks eru ekki vel rannsökuð. Á þéttbýlum svæðum nær virkjununum er ástæða til að gera ráð fyrir að viðlíka loftmengun og líklega meiri en mælst hefur i Reykjavík enda hefur Hveragerði mótmælt áformunum. Í þessu samhengi er rétt að minna á að ógerningur er að hreinsa brennisteinsvetni úr holum sem eru í blæstri og því myndi frekari borunum óhjákvæmilega fylgja aukið mengunarálag, jafnvel þó áform séu um að hreinsa útblástur úr nýjum virkjunum þegar fram líða stundir. Í ljósi þess vanda sem fyrir er og þess að langtímaáhrif brennisteinsvetnismengunar hafa lítið rannsökuð telja Náttúruverndarsamtök Íslands algerlega óásættanlegt að auka enn á vandann. Yfirvöldum ber þvert á móti að gera Orkuveitu Reykjavíkur að leysa þann mengunarvanda sem rakinn verður til starfandi virkjana á svæðinu fremur enn á auk enn á mengunarálagið eins og stefnir í með fyrirliggjandi tillögu um skipulagsbreytingu.

Auk brennisteinsvetnismengunarinnar sem fjallað er um hér að ofan hafa komið fram vísbendingar um að aðrir mengunarþættir séu farnir að valda tjóni á gróðurfari og lífríki svæðisins. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur bent á skemmdir á mosa bæði við virkjanir á Hengilssvæðinu og hafa samskonar gróðurskemmdir fundist við virkjun HS orku í Svartsengi. Þá hefur styrkur á kvikasilfri í urriða í Þingvallavatni mælst yfir leyfilegum mörkum og á heimasíðu þjóðgarðsins er bent á að urriði sem er lengri en 60 cm sé  mjög líklegur til að innihalda kvikasilfur í magni sem yfirstígur leyfileg heilsuverndarmörk.

Vitað er að jarðvarmavirkjunum getur fylgt útblástur á kvikasilfri og að svo stöddu er ekki hægt að útiloka að kvikasilfursmengunina sem mæla má í lífríki Þingvallavatns megi rekja til starfandi virkjana á svæðinu. Það hefur einfaldlega ekki verið rannsakað. Með vísan í varúðarsjónarmið telja Náttúruverndarsamtök Íslands mikilvægt að auka ekki mengunarálag á svæðinu enda virðist þolmörkum og viðmiðunarmörkum ýmsum þegar verið náð. Hinsvegar ber að ráðast í víðtæka umhverfisvöktun og grípa til aðgerða til þess að draga úr mengun starfandi virkjana svo komið verði í veg fyrir frekari hnignun gróðurfars og eftir atvikum aukinna áhrifa á lífríki Þingvallavatns.

Birt:
2. október 2009
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Athugasemdir NSÍ vegna auglýstra breytinga á aðalskipulagi Ölfuss“, Náttúran.is: 2. október 2009 URL: http://nature.is/d/2009/10/02/athugasemdir-nsi-vegna-auglystra-breytinga-aoalski/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 5. október 2009

Skilaboð: