Vetnisframtíð Íslands er björt að áliti vísindamanna Evrópusambandsins en þeir telja að það gæti verið hagkvæmast að framleiða vetni á Íslandi. Vetni gæti orðið framtíðarorkugjafi ESB og því er lögð mikil áhersla á að rannsaka hagkvæmnismöguleikana vítt og breitt.

Hvað þetta þýðir fyrir Ísland er ófyrirséð og liggur ekki fyrir að hagkvæmninni geti verið náð í nánustu framtið. Íslensk vatns-og varmaorka yrði þá notuð til framleiðslunnar ef ekki er búið að þurrausa orkulindirnar löngu áður en að vetni verður hagkvæmur og raunhæfur kostur til almennrar notkunar. Djúpboranir gætu hugsanlega opnað leiðina fyrir Ísland sem vetnisútflutningsland. Nú eru tilraunir með djúpboranir að hefjast á Hellisheiði og „stóri borinn“ Drillmec HH 300 er kominn til landsins. Drillmec HH 300 fer á 3000 metra dýpi og 5500 metra við skáboranir.

Væntanlegt er til landsins teymi erlendra samstarfsaðila Jarðborana, norðmenn, sérfræðingar í djúporun á norska hafdjúpinu og norðursjó. Nú er verið að stilla og prófa borinn sem er knúinn með hápresslulofti og glussaþrýstingi. Aðrir borar sem fyrir eru á heiðinn eru Óðinn og Sleipnir sem eru uppi á Skarðsmþarfjalli og Geysir og Saga sem eru við fjallsræturnar. Jarðboranir hf sem í gær sameinaðist Geysir Green Energy var eigandi boranna og stærsta fyrirtæki af þessari tegund í heiminum.

Eins og þegar hefur verið fjallað um hér á vefnum keypti Geysir Green Energy Jarðboranir hf í gær. Geysir Green Energy er því núverandi eigandi boranna og því langstærsta fyrirtæki af þessari tegund í heiminum.

Nánar:

Jarðboranir gengu frá samningum um kaup á nýjum hátækni djúpbor í september 2006, það er borinn, sem nú er að hefja störf við Hverahlíð á Hellisheiði, Drillmec HH-300. Hann er stærsti og öflugasti jarðborinn í tækjaflota félagsins og jafnframt fullkomnasta tæki sinnar tegundar hér á landi. Borinn er af gerðinni Drillmec HH-300.

Fyrirtækið Drillmec S.p.A. í borginni Piacenza á Ítalíu hannaði og framleiddi borinn í samráði við Jarðboranir, en allir fjórir nýjustu jarðborarnir eru frá þessum sama framleiðanda. Kaupverð nýja borsins er um 1,4 milljarðar íslenskra króna. HH 300 er með lyftigetu um 300 tonn og getur borað samtals um 5500 metra, hvort sem er niður beint eða með skáborunum í allar áttir eftir því sem útreikningar verk- og jarðfræðinga segja til um. Borinn er knúinn með loft- og glussatækni, sem fær orku frá öflugum rafvélum sem framleiða hundruð hestafla og 2-3 MWe til að knýja jarðborinn HH 300.

Orkuveitan og Jarðboranir gerðu viðaukasamning að fjárhæð 3,7 milljarðar

Á síðasta ári var undirritaður viðaukasamningur milli Jarðborana hf og Orkuveitu Reykjavíkur um jarðboranir á Hellisheiði og Hengilssvæði. Um er að ræða einn stærsta samning sinnar tegundar í borverkefnum.

Samningurinn var undirritaður af Bent S. Einarssyni, forstjóra Jarðborana og Guðmundi Þóroddsyni, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Fjárhæð samningsins er 3,7 milljarðar króna.

Jarðboranir, áður ríkisfyrirtæki, sem var einkavætt, er í dag eitt stærsta fyrirtæki á sínu sviði í heiminum með öfluga sérfræði- og verkþekkingu. Fyrirtækið hefur starfað erlendis m.a. á Azoraeyjum bæði við kaldavatnsöflun og við jarðhitaboranir og rannsóknir.

Jarðboranir hf, áður í eigu fjárfestingafélagins Atorku Group var selt til Geysir Green Energy ásamt dótturfélögum m.a. ný stofnuðu borfyrirtæki í Þýskalandi Hekla Energy GmbH. Jarðboranir verða rekin áfram sem sjálfstæð eining innan Geysir Green Energy. (forstjóri GGE er Ásgeir Margeirsson byggingaverkfræðingur og doktor í framkvæmdastjórnun frá háskólanum í Lundi, var framkvæmdastjóri virkjana hjá OR (þegar Hellisheiðarvirkjun var byggð) og áður framkvæmdastjóri Iceland drilling UK, dótturfyrirtækis Jarðborana hf)

Nær víst er að GGE bjóði fram þekkingu sína og verkkunnáttu í margvíslegum verkum erlendis, bæði gegnum ný leg kaup á kanadísku orkufyrirtæki, gegnum Hekla Energy í Þýskalandi, Iceland drilling UK og síðast en ekki síst í gegnum Enex China, en þar er Ásgeir forstjóri GGE einnig stjórnarformaður. Jafnfamt er líklegt að GGE verði "sett á markað" innan fárra ára.

Myndin er af Drillmec HH 300.

Birt:
2. ágúst 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sá stóri kominn - Djúpboranir“, Náttúran.is: 2. ágúst 2007 URL: http://nature.is/d/2007/08/02/s-stri-kominn-djpboranir/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 14. janúar 2008

Skilaboð: