Náttúruverndarsamtök Vestfjarða verða formlega stofnuð í Hömrum á Ísafirði n.k. laugardag, 5. apríl kl. 14:00

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra verður heiðursgestur stofnfundarins og mun ávarpa fundinn. Meðal annarra frummælenda verða Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands og Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður og rithöfundur. Úr hópi heimamanna munu Þórhallur Arason, Sigríður Ragnarsdóttir og Ragnheiður Hákonardóttir taka til máls. Fundarstjóri verður Ólína Þorvarðardóttir.

"Vestfirðingar hafa löngum verið hreyknir af þeirri einstöku náttúrufegurð sem hér ríkir og hún er stór og mikilvægur þáttur í þeirri ímynd sem Vestfirðingar hafa skapað sér á undanförnum árum. Nýting Hornstrandafriðlands, vistfræði og náttúrurannsóknir, áform tengd ferðamennsku, stóriðju, pólsiglingum, hafnarmannvirkjum og samgöngum - allt kallar þetta á að vestfirsk náttúran hafi formlegan málsvara í heimabyggð" segir í fréttatilkynningu undirbúningshóps.

Vestfirsk náttúruverndarsamtök voru upphaflega stofnuð í Flókalundi árið 1971. Þau létu að sér kveða, gáfu m.a. út tímaritið Kaldbak og áttu stóran þátt í friðlýsingu Hornstranda. Fimmtán árum síðar féll starfsemin samtakanna niður.

Helstu verkefni náttúruverndarsamtaka eru verndun náttúru, umhverfisfræðsla, friðlýsing merkra og fagurra staða, verndun minja og skynsamleg nýting náttúruauðlinda.

Fundarboðendur hvetja Vestfirðinga til að mæta á fundinn og láta sig varða þetta mikilvæga málefni. Þeir sem ekki komast en vilja ganga í samtökin geta sent tölvupóst á netfangið smg5@simnet.is

Mynd: Sker í Arnarfirði. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
4. apríl 2008
Höfundur:
Skutull
Uppruni:
skutull.is
Tilvitnun:
Skutull „Stofnfundur Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða“, Náttúran.is: 4. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/04/stofnfundur-natturuverndarsamtaka-vestfjaroa/ [Skoðað:3. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: