Umhverfisvottaðir Vestfirðir – Ráðstefna á Núpi 17. apríl
Ferðamálasamtök Vestfjarða standa fyrir metnaðarfullri ráðstefnu undir yfirskriftinni Umhverfisvottaðir Vestfirðir laugardaginn 17. apríl n.k. Ráðstefnan verður haldin í tengslum við aðalfund samtakanna á Hótel Núpi í Dýrafirði og hefst kl. 11:00. Ráðstefnan er öllum opin, en meðal framsögumanna verður Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.
Ferðamálasamtök Vestfjarða hafa unnið að stefnumótun vestfirskrar ferðaþjónustu undanfarna mánuði og haldið fundi um allan fjórðunginn. Mjög mikil þátttaka var á fundunum, en vel yfir 100 manns tóku þátt í umræðum um framtíð vestfirskrar ferðaþjónustu og þar með samfélagsins á Vestfjörðum. Á fundunum kom fram að umhverfismál brenna sérstaklega á Vestfirðingum og skýr krafa var uppi um að tekin yrði umræða um hvers kyns umhverfismál sem varða fjórðunginn.
Í beinu framhaldi af stefnumótunarfundunum ákvað stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða að hefja strax undirbúning ráðstefnu um kosti þess að stefna að umhverfisvottun Vestfjarða. Tekið var upp samstarf við Náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi við undirbúning ráðstefnunnar, en starfsmenn stofunnar hafa lagt fram tillögur um að Ísland verði fyrsta umhverfisvottaða landið í heiminum. Verkefnið er þegar komið vel af stað á Snæfellsnesi.
Á ráðstefnunni Umhverfisvottaðir Vestfirðir verða haldin fjölbreytt erindi. Rætt verður um stöðu umhverfismála á Íslandi og hvaða aðgerða sé hægt að grípa til, auk þess sem þessi mál verða sett í hnattrænt samhengi. Fjallað verður um almennt viðhorf til náttúrunnar og sagðar reynslusögur af vottun einstakra fyrirtækja, með áherslu á mikilvægi vottunar fyrir markaðsstarf og daglegan rekstur. Loks verður sagt frá sérstökum verkefnum, svo sem hugmyndum um rafbílavæðingu Íslands.
Á ráðstefnunni munu fulltrúar Náttúrustofu Vesturlands fjalla sérstaklega um hugmyndafræðina á bak við verkefnið Umhverfisvottað Ísland. Meðal fyrirlesara verður einnig Leo Christensen, atvinnumálafulltrúi Lolland kommune í Danmörku. Leo mun segja frá þeim aðgerðum sem stjórnvöld á Lálandi gripu til fyrir rúmum áratug þegar ástand í atvinnumálum þar var orðið nánast óbærilegt og þeim jákvæðu áhrifum sem þessi nýja stefna hefur haft fyrir íbúa og atvinnulíf eyjarinnar. Þá er ótalinn fjöldi annarra fræðimanna og sérfræðinga sem hafa látið umhverfismál til sín taka og munu miðla ráðstefnugestum af mikilli reynslu sinni á því sviði.
Ferðamálasamtök Vestfjarða stefna að því að fylgja ráðstefnunni eftir í samvinnu við Fjórðungssamband Vestfirðinga. Markmiðið er að umhverfisvottun Vestfjarða komist á dagskrá Fjórðungssambandsins og að vestfirsk sveitarfélög sameinist um að stefna að slíkri vottun.
Ráðstefnan á Núpi er öllum opin sem fyrr segir. Ekki verður rukkað þátttökugjald, en ráðstefnugestum er bent á að hafa samband við Hótel Núp til að panta sér mat og gistingu ef á þarf að halda.
Sjá grein um hvernig Ísland gæti orðið fyrsta umhverfisvottaða land í heimi.
Sjá dagskrá ráðstefnunnar hér að neðan:
11:00 Setning – Sigurður Atlason, Ferðamálasamtökum Vestfjarða
11:05 Ávarp umhverfisráðherra – Svandís Svavarsdóttir
11:15 Aðeins ein jörð: staða hnattrænna umhverfismála og mikilvægi aðgerða – Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Umhverfis- og auðlindafræði og Stofnun Sæmundar fróða, Háskóla Íslands
11:45 Aðeins eitt Ísland: staða umhverfismála hér heima – Kristín Svavarsdóttir, Landgræðslu ríkisins
12:10 Umræður
12:20 Matarhlé
13:10 Endurreisn Lálands - Leo Christensen, atvinnumálafulltrúi Lolland kommune, Danmörku
13:40 Sjálfbært Snæfellsnes – Róbert A. Stefánsson, Framkvæmdaráði Snæfellsness
14:00 Umhverfisvottun Íslands – Menja von Schmalensee, Náttúrustofu Vesturlands
14:15 Reynsla umhverfisvottaðs sveitarfélags af leiðandi starfi í umhverfismálum – Erla Friðriksdóttir, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar
14:30 Umræður
14:40 Reynsla fyrirtækis af vottun – Rannveig Grétarsdóttir, Eldingu hvalaskoðun
14:50 Reynsla fyrirtækis af vottun – Aðalbjörg Þorsteinsdóttir, Villimey Tálknafirði
15:00 Umræður
15:10 Kaffihlé
15:30 Viðhorf ferðafólks til náttúru – Edward H. Huijbens, Rannsóknarmiðstöð ferðamála
15:50 Villt dýr að féþúfu – mikilvægi sjálfbærni – Ester R. Unnsteinsdóttir, Melrakkasetri
16:10 Rafbílavæðing Íslands – Sighvatur Lárusson, Northern Lights Energy
16:30 Hvernig birtist stefna vestfirskra sveitarfélaga í umhverfismálum? – Anna Guðrún Edvardsdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfjarða
16:40 Umræður
17:10 Ráðstefnuslit
17:30 Skoðunarferð með leiðsögn í garðinn Skrúð í Dýrafirði
20:00 Kvöldverður
Fundarstjóri: Stefán Gíslason, Environice
Sjá hér á Grænum síðum þá aðila á Íslandi sem hlotið hafa fullnaðarvottun Green Globe.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Umhverfisvottaðir Vestfirðir – Ráðstefna á Núpi 17. apríl“, Náttúran.is: 12. apríl 2010 URL: http://nature.is/d/2010/04/12/umhverfisvottadir-vestfirdir-radstefna-nupi-17-apr/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. apríl 2010