Yfir 1.000 staðfest tilfelli inflúensu A (H1N1)
Staðfest tilfelli inflúensu A (H1N1) - „svínainflúensunnar“ - voru í morgun alls 1.008 í nítján ríkjum í heiminum samkvæmt upplýsingum Sóttvarnarstofnunar Evrópusambandsins (sjá nánar sundurliðun aftast í þessari tilkynningu).
Einkenni veikinnar eru enn sem komið er væg nema í Mexíkó. Dauðsföll sem rakin eru til veikinnar eru 23, þar af 22 í Mexíkó og eitt í Bandaríkjunum.
Á síðasta sólarhring voru staðfest 30 ný tilvik á Evrópska efnahagssvæðinu, þar af 24 á Spáni.
- Engin tilfelli inflúensu A (H1N1) hafa verið staðfest hér á landi en rétt er að minna á að hin árlega inflúensa, sem gekk hér í vetur, er enn í gangi á Íslandi og hafa nokkur slík tilfelli verið greind hér á síðustu dögum.
- Engir sjúklingar með alvarleg einkenni inflúensu hafa verið lagðir inn á Landspítalann núna um helgina.
- Viðbúnaðarstig vegna yfirvofandi heimsfaraldurs er óbreytt hér landi og ekki áformað að grípa til róttækari aðgerða en þegar hefur verið gert.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælir nú með að talað sé um inflúensu A (H1N1) í stað „svínainflúensu“.
Að gefnu tilefni skal tekið fram að embætti sóttvarnalæknis styðst við upplýsingar frá Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) um útbreiðslu inflúensunnar. Þær er að finna á heimasíðu stofnunarinnar http://www.ecdc.europa.eu/. Tölum um útbreiðslu veikinnar frá Sóttvarnastofnuninni annars vegar og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni hins vegar ber ekki saman í mörgum tilvikum en sóttvarnarlæknir telur upplýsingar hinnar fyrrnefndu áreiðanlegri og vísar til þeirra.- Upplýsingar um inflúensuna og ráðstafanir í því sambandi er að finna á landlaeknir.is, almannavarnir.is, influensa.is og heimasíðum Sóttvarnarstofnuanr Evrópusambandsins - ECDC, http://www.ecdc.europa.eu/ og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar - WHO, http://www.who.int/en/.
- Áréttað skal að birgðir sem íslensk heilbrigðisyfirvöld ráða yfir af lyfjum gegn inflúensu A (H1N1), 100.000 skammtar, eru annars vegar Tamiflu (80.000 skammtar) og Relenza (20.000 skammtar). Þetta er tekið fram hér vegna þess að dæmi eru um að í fjölmiðlum hafi verið fullyrt að allar birgðirnar væru Tamiflu-lyf en það er sem sagt ekki rétt.
að morgni 4. maí 2009
Staðfest tilfelli í Evrópu |
|
Austurríki | 1 |
Danmörk | 1 |
Frakkland | 2 |
Þýskaland | 8 |
Írland | 1 |
Ítalía | 2 |
Holland | 1 |
Spánn | 44 |
Sviss | 1 |
Bretland | 18 |
Alls í Evrópu | 79 |
|
|
Staðfest tilfelli utan Evrópu |
|
Kanada | 101 |
Kólumbía | 1 |
Kosta Ríka | 1 |
Hong Kong | 1 |
Ísrael | 3 |
Mexíkó | 590 |
Suður-Kórea | 1 |
Nýja Sjáland | 5 |
Bandaríkin | 226 |
Alls utan Evrópu | 929 |
|
|
Alls staðfest tilfelli í heiminum öllum | 1.008 |
Heimild: Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins
http://www.ecdc.europa.eu/
Birt:
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Yfir 1.000 staðfest tilfelli inflúensu A (H1N1)“, Náttúran.is: 4. maí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/05/04/yfir-1000-staofest-tilfelli-influensu-h1n1/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.