Alvarlegar athugasemd hafa borist frá Félagi umhverfisfræðinga á Íslandi vegna auglýsingar þingmanna Sjálfstæðisflokks í Morgunblaðinu þann 8. apríl 2009.

Í Morgunblaðinu í gær, 8. apríl, birtist heilsíðuauglýsing þingmanna Sjálfstæðisflokksins þar sem vitnað er í nokkrar umsagnir fræðimanna og sérfræðinga og talað um harða gagnrýni þeirra á frumvarp til breytinga á stjórnarskrá. Félag umhverfisfræðinga á Íslandi vill koma eftirfarandi á framfæri vegna þessarar auglýsingar en í henni var vitnað í umsögn
félagsins um frumvarpið:

Félag umhverfisfræðinga tók einungis 1. gr. frumvarpsins til umfjöllunar sem fjallaði um náttúruauðlindir í þjóðareign. Í umsögn sinni var félagið fylgjandi því að þessari grein yrði bætt inn í stjórnarskrá og því er erfitt að túlka umsögn félagsins sem harða gagnrýni á frumvarpið eins og segir í auglýsingu Sjálfstæðismanna. Félagið gerði þó vissulega nokkrar athugasemdir við frumvarpið, m.a. að óvarlegt væri að tala um að allar náttúruauðlindir beri að nýta á sem hagkvæmastan hátt og að skilgreina þyrfti hvað felst í sjálfbærri þróun og í því að láta náttúruauðlindir í þjóðareign varanlega af hendi (sjá nánar umsögn félagsins á umhverf.is).

Félag umhverfisfræðinga telur að auglýsing þingmanna Sjálfstæðisflokks sé til þess gerð að valda misskilningi varðandi um hvað umsögn félagsins raunverulega fjallaði. Félag umhverfisfræðinga á Íslandi harmar það að stjórnmálaflokkur skuli slíta úr samhengi umsögn fagfélags og frábiður sér að faglegar umsagnir um þingmál séu misnotaðar á þennan hátt í pólitískum tilgangi.

Nánari upplýsingar hjá Guðmundi Inga Guðbrandssyni formanni Félags umhverfisfræðinga á Íslandi. gsm: 863 1177

Birt:
11. apríl 2009
Tilvitnun:
Guðmundur Ingi Guðbrandsson „Athugasemd Félags umhverfisfræðinga vegna auglýsingar Sjálfstæðisflokksins“, Náttúran.is: 11. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/11/athugasemd-felag-umhverfisfraeoinga-vegna-aulysing/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: