Orð dagsins 26. september 2008.

Fyrsta sjávarorkuverið sem selur raforku inn á landsnet, var tekið í notkun í Portúgal í fyrradag. Í verinu, sem er staðsett um 5 km frá landi, er notast við svonefnda Pelamis- eða sjósnákatækni, sem byggir á löngum samsettum hólkum sem mara í hálfu kafi og breyta ölduhreyfingum í raforku. Þrír slíkir 140 m langir „snákar“ eru í verinu með samanlagða framleiðslugetu upp á 2,25 MW, sem á að nægja sem raforka fyrir um 1.500 heimili.

Kostnaður við verkefnið, sem nefnt er Agucadoura, er kominn í um 8,5 milljónir evra, (um 1,2 milljarða ísl. kr.). Aðstandendur Agucadoura-verkefnisins stefna að því að bæta 22 „snákum“ við orkuverið á næstu árum og auka þannig framleiðslugetuna í 21 MW. Orkan frá verinu er ekki samkeppnisfær í verði, en verður niðurgreidd þar sem um tilraunastarfsemi er að ræða. Vonast er til að innan 15 ára verði nýting sjávarorku orðin álíka þróuð og nýting vindorku er í dag.

Lesið frétt PlanetArk/Reuter í gær,
rifjið upp „Orð dagsins“ 28. febrúar 2007
og fræðist meira í Wikipediu

Birt:
25. september 2008
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Orka virkjuð úr ölduhreyfingum“, Náttúran.is: 25. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/26/orka-virkjuo-ur-olduhreyfingum/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. september 2008

Skilaboð: