Fuglavernd býður í fuglaskoðun á morgun laugardaginn 30. janúar

Dagana 29. jan.– 1.feb.stendur Fuglavernd fyrir garðfuglaskoðun þar sem landsmenn eru hvattir til að skoða og skrá fjölda og tegundir fugla einn klukkutíma í görðum og þá er átt við þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir. Þetta er nú einn af árvissum viðburðum sem félagið stendur fyrir. Gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum áður með því að gefa daglega til að lokka að fugla.

Markmiðið er að afla upplýsinga um hvaða tegundir eru til staðar og fjölda innan tegunda ekki síst á tímum loftlagsbreytinga en einnig er markmið að vekja áhuga á fuglum og töfrum þeirra. Við viljum fá fólk til þess að fóðra fugla sem er uppbyggjandi tómstundargaman og mikil aðstoð við garðfugla í oft harðri lífsbaráttu yfir vetrartímann. Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund.

Upplýsingar um fóðrun garðfugla er hægt að finna á vef Fuglaverndar og á Garðfuglavefnum. Á Garðfuglavefnum geta þátttakendur einnig skráð niðurstöður sínar og sent þær inn rafrænt. Einnig verður bráðlega fáanlegur veglegur bæklingur um garðfugla sem hægt verður að nálgast á skrifstofu Fuglaverndar.

Umsjónarmenn garðfuglaskoðunarinnar, þeir Ólafur Einarsson (s:8999744) og Örn Óskarsson (s:8469783), veita gjarnan upplýsingar ásamt starfsmanni Fuglaverndar Hólmfríði Arnardóttur.

Af þessu tilefni býður Fuglavernd í fuglaskoðun laugardaginn 30.janúar en við munum hittast á bílastæðinu við Fossvogskirkjugarð kl. 14:00 - allt lagi að vera vongóður um að sjá einhverja fallega spörfugla þó að janúar sé kannski ekki besti mánuðurinn sérstaklega þegar auð er jörð. En allir eru velkomnir og það er spáð fallegum degi.

Ljósmynd: Skógarþröstur, Jóhann Óli Hilmarsson.

Birt:
29. janúar 2010
Tilvitnun:
Hólmfríður Arnardóttir „Garðfuglaskoðun um helgina“, Náttúran.is: 29. janúar 2010 URL: http://nature.is/d/2010/01/29/gardfuglaskodun-um-helgina/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 8. febrúar 2010

Skilaboð: