Árleg uppskeruhátíð verður haldin í Grasagarði Reykjavíkur laugardaginn 22. ágúst frá kl. 13:00-16:00. Í nytjajurtagarðinum þar vaxa um 130 tegundir og yrki mat- og kryddjurta. Gestum verður boðið að bragða á ný uppteknu grænmeti úr garðinum og til sýnis verða kryddjurtir og lækningajurtir. Þá verða gestir fræddir um ræktun jurtanna og notkun þeirra.

„Hátíðin hefur verið mjög vel sótt undanfarin ár,“ segir Jóhanna Þormar sem mun taka á móti gestum ásamt öðrum garðyrkjufræðingum og starfsmönnum Grasagarðsins á laugardaginn. „Oft hafa komið upp undir 300 manns í heimsókn þennan dag,“ segir hún og að garðyrkjufræðingar muni leitast við að veita upplýsingar alla hátíðina.

Gestum verður boðið að bragða á ný uppteknu grænmeti úr garðinum og gefst kostur á að fræðast um ræktun þess. Leiðbeint verður um jarðgerð í heimilisgörðum og sýnt hvernig útbúa má kraftmikla mold úr eldhús- og garðaúrgangi.

Ár hvert er breytt um áherslur í nytjagarðinum og ný yrki ræktuð eftir því sem tök eru á að sögn Jóhönnu. Núna verður fjölbreytt yrki af rauðrófum í brennidepli - en ræktuð voru 5 mismunandi yrki af rauðrófum, gular, rauðar, tvílitar, aflangar og  hnöttóttar.

Gestir fá að bragða á rauðu og hvítu hnúðkáli og sýndar verða ýmsar tegundir af matlauk s.s. sjallotlauk, rauðlauk, vorlauk og blaðlauk. Spergill, sykurbaunir, rauð og hvít rifsber, sólber og stikilsber verða til sýnis ásamt mörgu öðru.

Í kryddjurtagarðinum verður jafnframt hægt að kynnast mörgum tegundum mintu s.s. piparmintu, eplamintu, ananasmintu og ilmmintu. Þar er einnig ræktað sykurlauf, fennel, anís, rósmarín, salvía, majoram og sítrónumelissa.

Starfsfólk Grasagarðsins tekur á móti gestum og hefst fræðslan við Laugatungutorg. Boðið er upp á te úr piparmintu sem ræktuð er í garðinum.

Mynd: Radísuuppskera úr Eldhúsgarðrinum. Ljósmynd: Einar Bergmundur.

Birt:
19. ágúst 2009
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Uppskeruhátíð í Grasagarði Reykjavíkur“, Náttúran.is: 19. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/19/uppskeruhatio-i-grasagaroi-reykjavikur/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: