Efnavörulöggjöf Evrópusambandsins innleidd
Umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur sett reglugerð nr. 750/2008 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir á efnum. Reglugerðin er sett til að innleiða nýja efnavörulöggjöf Evrópusambandsins, svokallaða REACH reglugerð (Registration, Evaluation, Authorisation and Restriction of Chemicals, REACH). Hún leysir af hólmi í áföngum u.þ.b. tuttugu gildandi reglugerðir er varða framleiðslu, markaðssetningu, notkun og takmarkanir á efnum og efnablöndum.
Þessi nýja reglugerð hefur víðtæk áhrif hér á landi þar sem gildissvið hennar er víðtækara en í eldri reglugerðum um efni og efnablöndur. Hér er ekki einungis verið að fjalla um eiturefni og hættuleg efni eða efni sem notuð eru í miklu magni í iðnaði heldur einnig algeng efni og efnablöndur, svo sem hreinsiefni og málningu, sem og efni í algengum hlutum eins og raftækjum, fötum og húsgögnum.
Aðalmarkmið reglugerðarinnar er að vernda heilsu manna og umhverfi sem mest fyrir áhrifum efna, liðka fyrir samkeppni í efnaiðnaði og efla þróun nýrra efna í Evrópu. REACH reglugerðin hefur í för með sér nýjar skyldur fyrir íslensk fyrirtæki. Ein sú mikilvægasta er að fyrirtækjum ber að skrá, hjá Efnastofnun Evrópu, öll efni sem framleidd eru, eða flutt inn frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins í meira magni en sem nemur 1 tonni á ári. Gildir þetta um öll efni, hvort sem þau eru hrein, í efnablöndum eða í hlutum. Með skráningu skulu fylgja ítarlegar upplýsingar um efnið og áhrif þess á heilsu manna og umhverfi.
Yfirvöld hafa hingað til borið ábyrgð á að skráð efni séu metin með tilliti til áhættu en þeirri vinnu hefur miðað hægt. Með nýju reglugerðinni færist ábyrgð á áhættumati efna yfir á framleiðendur efna sem og innflytjendur frá löndum utan EES-svæðisins. Framleiðendur og innflytjendur þurfa að veita upplýsingar um eiginleika efna sinna, notkunarsvið, váhrif og hvernig nota megi þau á sem öruggastan hátt. Niðurstöður mats á efnum verða síðan grundvöllur að ákvarðanatöku um hvort setja þarf takmarkanir á notkun efna. Ein af grundvallarreglum reglugerðarinnar er að hættulegum efnum verði markvisst skipt út fyrir hættuminni staðgengilsefni sem vitað er að koma að sömu notum.
Sömu reglur um takmarkanir á notkun ákveðinna hættulegra efna munu gilda áfram. Enn fremur gætu fyrirtæki þurft að sækja um sérstök leyfi til notkunar á efnum sem skilgreind hafa verið sem sérstaklega varasöm. Eftir því sem skráningu og mati efna vindur fram á evrópskum vettvangi mun framkvæmdastjórn ESB taka nýjar ákvarðanir um takmarkanir á framleiðslu, setningu á markað og notkun á efnum. Samkvæmt reglugerðinni er markaðssetning hættulegustu efnanna háð sérstöku markaðsleyfi. Má þar nefna krabbameinsvaldandi efni, efni sem valda stökkbreytingum eða hafa áhrif á æxlun, sem og þau efni sem safnast fyrir í lífverum, eru þrávirk eða eitruð.
Efnaframleiðsla í heiminum hefur vaxið úr um 1 milljón tonna árið 1930 í yfir 200 milljón tonn á ári og fer enn vaxandi. Efni má finna alls staðar í umhverfinu og vörum, svo sem í fatnaði, leikföngum, húsgögnum, snyrtivörum, þvottaefni, málningu, byggingarefni, matvælum og umbúðum og fleiru. Mörg þessara efna má einnig finna í lofti, vatni, jarðvegi og einnig í mönnum og dýrum, þar sem þau hafa safnast fyrir í gegnum árin. Efni geta haft hættulega eiginleika, verið ertandi, ætandi eða eitruð, valdið krabbameini, stökkbreytingum á erfðaefni eða neikvæðum áhrifum á æxlun. Þrátt fyrir þessa staðreynd er lítið vitað um áhrif flestra efna sem eru á markaði í dag. REACH-reglugerðinni er ætlað að bæta úr þessu.
Nánari upplýsingar um REACH reglugerðina og áhrif hennar má finna á vef Umhverfisstofnunar og á heimasíðu Efnastofnunar Evrópu. Nálgast má reglugerðina í heild sinni á vef Stjórnartíðinda.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Efnavörulöggjöf Evrópusambandsins innleidd“, Náttúran.is: 31. júlí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/08/02/efnavoruloggjof-evropusambandsins-innleidd/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 2. ágúst 2008