Þó að Náttúran sé ekki talsmaður eins eða neins stjórnmálaflokks, hefur hún skyldum að gegna gagnvart náttúru og umhverfi og heldur því áfram að fjalla um frambjóðendur flokkanna sem kenna sig við áherslur í umhverfismálum. Í dag er fjallað um prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi, SV-kjördæmi og Suðurkjördæmi.

Prófkjör Samfylkingarinnar er að verða mjög áberandi í bæjarlífinu á stór-Reykjavíkursvæðinu þessa dagana. Samfylkingarmenn eru af öllum stærðum og gerðum, með og á móti stóriðjustefnunni og sum obbolítið út á grænu miðjuna og aðrir hreint ekki, eins og lesa má um í samanburðarspurningaleikjum dagblaðanna. Stefnan því ekki ljós hvað framtíðarstefnu flokksins varðar og Náttúran alveg græn í þessum flokkamálum. Reyni þó að átta mig á málunum með hjálp góðra manna. Þórhildur Þorleifsdóttir1) þorir að kenna sig við það sem hún stendur fyrir, náttúruverðmæti, kvenfrelsi, nýsköpun, menntun og allt það sem til fyrirmyndar má teljast (sjá auglýsingaborða hennar hér t.v. en hann birtist nú á mbl.is). En hvernig eru annars Samfylkingarkonur þenkjandi í umhverfismálum. Er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir2) og Steinunn Valdís Óskarsdóttir3) tvímælalausir talsmenn endurskoðunar stóriðjustefnunnar? „Fagra Ísland“ virðist gefa fyrirheit um það, eða? En ef við leggjum jafnréttisgleraugun á hilluna þá má nefna Róbert Marshall4) sem dugmikinn náttúruverndarsinna og Mörð Árnason5). Minna má fólk á að úr breiðum hópi Samfylkingarþingmanna í SV-kjördæmi voru það aðeins Rannveig Guðmundsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir6) sem greiddu atkvæði gegn Kárahnjúkavirkjun. Leggið endilega eitthvað til málanna í leggja orð í belg og bendið á alvarlega umhverfisþenkjandi frambjóðendur sem hér eru ekki nefndir eða bætið við punktum.

1)sækist eftir 6.-8. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi.
2)sækist eftir 1. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi.
3)sækist eftir 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi.
4)sækist eftir 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.
5)sækist eftir 4.-6. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi.
6)sækist eftir 1.-2. sæti á lista Samfylkingarinnar í SV- kjördæmi.


Birt:
4. nóvember 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hver meinar umhverfisáherslur?“, Náttúran.is: 4. nóvember 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/umhverfisaherslur/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 2. maí 2007

Skilaboð: