Gerð verður tilraun til að stýra umferð á morgnanna á virkum dögum á Hlíðarfæti við Öskjuhlíð með því móti að leyfa aðeins umferð þeirra sem fara samferða í bíl. Umhverfis- og samgönguráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær að fela samgöngustjóra borgarinnar að gera tilraun með þetta að leiðarljósi. „Við viljum með þessari samþykkt stuðla að vistvænni ferðamáta til og frá skóla og vinnu en tíðkast hefur,“.segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður ráðsins.

Gert er ráð fyrir að strætisvagnar, leigubílar og samnýttir einkabílar njóti forgangs á Hlíðarfæti sem er nafn á nýrri götu sem tekin verður í gagnið um svipað leyti og Háskólinn í Reykjavík hefur starfsemi sína í Öskjuhlíð eða á vormisseri 2010. Þeir sem ferðast einir í bíl geta farið Flugvallarveg.

Í tillögu að samgöngustefnu Háskólans í Reykjavík stendur meðal annars að samgöngur til og frá Háskólanum í Reykjavík verði greiðar, vistvænar og stuðli að bættri heilsu og þar kemur einnig fram að starfsfólk og nemendur séu hvattir til að samnýta bíla til og frá skólanum með því að bjóða upp á sérstakan þjónustuvef þar sem hægt er að finna far með öðrum. Einnig kemur þar fram tillaga um að vel nýttar bifreiðar muni fá ásamt visthæfum bílum forgang á bílastæðum við skólann.
Birt:
26. ágúst 2009
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Samnýttir bílar njóti forgangs á Hlíðarfæti “, Náttúran.is: 26. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/26/samnyttir-bilar-njoti-forgangs-hlioarfaeti/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 27. ágúst 2009

Skilaboð: