Löngum hefur verið vitað að þótt neysla ávaxta og grænmetis sé vissulega heilsusamleg þá veitir hún ekki vörn gegn krabbameini. Nú benda rannsóknir hins vegar til þess að á þessari reglu sé undantekning. Sýnt hefur verið fram á að kál og aðrar matjurtir af svonefndri krossblómaætt geta verndað fólk gegn ýmsum tegundum krabbameins, svo sem í lungum, þörmum, brjósti og blöðruhálskirtli.

Skþringin á þessu forvarnargildi krossblómaættarinnar er sú að jurtirnar innihalda mikið af efnum sem nefnast glúkósínólatar. Þessi efni mynda ekki sjálf vörn gegn krabbameinsfrumum heldur losa þau í líkama neytandans efni sem nefnt er súlfóraphan en tilraunir með það efni, að vísu utan líkamans, sýna að það grandar krabbameinsfrumum. Glúkósínólata er ekki að finna í öðrum matvælum svo heitið geti.

Til krossblómaættar teljast margar matjurtir, svo sem blómkál, brokkólí, rósakál, radísur, gulrófur, piparrót, karsi, sinnep og rúkóla. Að sögn dr. Barböru Ann Halkier lektors á lífvísindadeild Kaupmannahafnarháskóla þarf ekki mikið af þessum matjurtum til þess að draga úr hættunni á að fá ofannefnd krabbamein. Að hennar sögn ættu menn að hafa eitthvað af ofannefndum matjurtum á diskinum sínum í það minnsta vikulega.

Sjá einnig grein um rannsóknir á lækningamætti káls.

Af vef Bændablaðsins bbl.is, Landbrugsavisen/www.cancer.dk.

Myndin er af brokkólíjurt í Grasagarði Reykjavíkur. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
2. febrúar 2008
Höfundur:
Landbrugsavisen
Uppruni:
Bændablaðið
Tilvitnun:
Landbrugsavisen „Kál verndar gegn krabbameini“, Náttúran.is: 2. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/02/kal-verndar-gegn-krabbameini/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: