Flestir Íslendingar eru jákvæðir gagnvart flokkun á sorpi og sýna vilja til að flokka. Þó flokka 20% lítið sem ekkert og eru neikvæðir eða afskiptalausir gagnvart flokkun. 61% svarenda telja sig sóa peningum en ástæðurnar eru mismunandi. Þetta kemur fram í könnun á neysluvenjum og viðhorfum til endurvinnslu sem nú hefur verið gefin út.

Rannsóknin leiddi meðal annars í ljós að Íslendingar sóa töluverðum verðmætum á hverju ári. Þó nokkuð af matvælum virðist fara til spillis á heimilum af ýmsum ástæðum. Einnig virðast Íslendingar eyða peningum sínum í hluti sem eru lítið sem ekkert notaðir og lenda margir þeirra í ruslinu.

Neysluvenjur íslenskra heimila og sá úrgangur sem þeim fylgja hafa lítið verið rannsakaðar. Rannsókninni var ætlað að kanna sóun Íslendinga og viðhorf þeirra til sóunar með því að biðja þá um að meta eigin sóun og ástæður hennar. Markmiðið var einnig að kanna flokkun Íslendinga á úrgangi, hvað flokkað er og hvers vegna. Rannsóknin á að hvetja til umræðu um sóun og flokkun úrgangs og vekja fólk til vitundar um hversu miklum verðmætum er sóað í samfélaginu.

Heildarsóun líklega 8 milljarðar

Rannsóknin sýndi 61% svarenda telja sig geta samþykkt að þeir sói peningum en ástæðurnar eru mismunandi. Gera má ráð fyrir að verðmæti matar sem hent er hér á landi sé um 3.4 milljarðar Líklegt er að heildarsóun sé 8 milljarðar á ári. Sem dæmi má nefna að svarendur telja að meðaltali að matvara að verðmæti 811 kr. lendi í ruslinu í viku hverri, oftast kál eða salat.

Könnunin var samstarfsverkefni Sorpu bs., Sorpstöðvar Suðurlands bs., Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf., Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar, Neytendasamtakanna, Landverndar og Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Spurningalisti var sendur til 3000 Íslendinga 18 ára og eldri sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá. 1198 svör bárust og svarhlutfall 40%.

Flokkun Íslendinga

Íslendingar eru af niðurstöðum að dæma meðalgóðir flokkarar. Á heimilum þar sem ekki er flokkað finnst fólki hún kosta of mikla fyrirhöfn eða að ekki sé pláss á heimilinu til flokkunar. Aðrir telja það tilgangslaust, gera það ekki vegna þess að þeir græða ekkert á því eða að það skipti ekki máli fyrir umhverfið. Flestir telja líklegt að þeir myndu flokka meira ef úrgangur yrði sóttur heim til þeirra.

Flestir sem flokka telja sig vera að leggja sitt af mörkum til að draga úr mengun og sóun náttúruauðlinda. Aðrir líta á það sem borgaralega skyldu sína.

Hér eru nokkrir punktar úr könnuninni:

SÓUN (punktar úr rannsókn)

• 30% svarenda telur sig ekki sóa peningum.

• Um 20% svarenda segjast verða argir og fá samviskubit þegar að þeir sóa peningum.

• Tæp 30% svarenda segjast sóa peningum vegna þess að þeir gera sér illa grein fyrir þörfum sínum og heimilisins.

• Rúm 20% svarenda segjast eyða peningum vegna þess að þeir hafa ánægju af því og njóta þess.

• Langflestir eða um 70% henda salati eða káli einu sinni í mánuði eða oftar.

• Flestir versla í matinn tvisvar til fjórum sinnum í viku.

• 18% svarenda gerir alltaf innkaupalista þegar verslað væri fyrir heimilið, þriðjungur oft en um fjórðungur stundum.

• Tæplega 40% svarenda höfðu keypt snyrtivörur sem höfðu verið lítið notaðar.

• Tæplega 30% höfðu keypt aðgang að einhvers konar líkamsræktarklúbbi sem var sjaldan eða aldrei notaður.

• Helmingur svarenda hefur keypt föt eða skó á útsölu sem voru sjaldan eða aldrei notuð.

• Fjórðungur svarenda kannast við að hafa keypt raftæki sem lítið eða ekkert hefur verið notað

• Helmingur svarendar hefur keypt eitthvað á útsölu sem ekki hefur hentað.

• 65% svarendar kannast við að hafa fengið gjöf sem þeir hefðu ekki not fyrir en vegna tillitssemi við gefandann var gjöfinni ekki skipt.

• 27% sig telja sig hafa sóað peningum vegna utankomandi þrýstings eða til að geta haldið í við nágranna.

• Flestir taka undir þá fullyrðingu að þeir hafi nokkra ánægju af því að sóa lítillega

• Flestir svarendur (94%) eru á því að Íslendingar sói mjög eða frekar miklum peningum.

FLOKKUN (punktar úr rannsókn)

• Langflestir eða um 90% svarenda sögðust alltaf flokka drykkjarumbúðir með skilagjaldi.

• Flestir sem flokka alltaf ýmsa nytjahluti, spilliefni og rafhlöður frá venjulegu heimilissorpi.

• Minnihluti svarendar flokkar mjólkurfernur, kertaafganga og lífrænan úrgang frá sorpi

• 80% svarenda telja að þeir myndu flokka meira ef flokkað sorp væri sótt heim til þeirra.

• Tæplega helmingur svarenda er fylgjandi því að heimilin borgi fyrir sorphirðu eftir magni.

• Um helmingur svarenda segist velta fyrir sér magni og stærð umbúða þegar að þeir kaupa þær en helmingur gerir það ekki.

• Flestir hafa frekar jákvæð viðhorf til flokkun úrgangs. Þó hafa um það bil 30%  frekar neikvætt viðhorf til flokkun úrgangs.

• Konur hafa talsvert jákvæðari viðhorf til flokkunnar en karlar og þeir sem eldri eru hafa einnig jákvæðari viðhorf en þeir yngri.

• Þeir sem hafa minni heimilistekjur eru almennt jákvæðri til flokkunar en þeir sem hafa hærri tekjur og einnig þeir sem hafa minni menntun.

• 30% svarenda þekkja til verkefnis Landverndar: Vistvernd í verki.

Tenglar:

Skýrslan Neysluvenjur og viðhorf til endurvinnslu

Skýrsluna má einnig nálgast á eftirfarandi heimasíðum:

www.sorpa.is, www.landvernd.is, www.sss.is, www.ns.is, www.portal.is/sorpstodFélagsvísindastofnun.

Birt:
20. maí 2008
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Greinilegur vilji til að flokka meira og sóa minna“, Náttúran.is: 20. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/20/greinilegur-vilji-til-ao-flokka-meira-og-soa-minna/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: