Fleiri verkefni með þátttöku íbúa á döfinni í Reykjavík
„Það gleður mig afar mikið að hér sé að hefjast sjálfsprottið verkefni þar sem grasrótin, íbúarnir, taka að sér að gera gott hverfi betra,“ sagði Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður umhverfis- og samgönguráðs á íbúahátíð á leikvellinum við Lynghaga 18. ágúst.
Íbúahátíðin var fjölsótt þótt sumarið hopaði á fæti þennan dag. Verkefninu á vellinum er ætlað að efla samstarf borgar og íbúa, samkennd og hverfisvitund með því að þróa og styrkja leikvöllinn við Lynghaga og gera aðlaðandi fyrir alla aldurshópa. Þorbjörg segir að sambærilegt verkefni muni vonandi hefjast fljótlega í Breiðholti.
Eitt af markmiðum Reykjavíkurborgar í átt að sjálfbæru samfélagi er að borgarbúar verði virkir þátttakendur í umhverfismálum og mótun borgarinnar. „Í undirbúningi er verkefni fyrir alla borgina sem við köllum Leikjastefnu þar sem samráð verður haft við íbúa um hvaða svæði kallist leiksvæði í hverfum. Þetta er spennandi verkefni sem fer af stað nú í haust og er hluti af grænum skrefum borgarinnar,“ segir hún og að öll þessi verkefni ættu það sameiginlegt að virkja grasrótina.
Þorbjörg nefnir einnig verkefni sem kallast Gleym-mér-ei og á sér fyrirmynd í Central Park í New York (sjá nánar á vefsvæði Central Park) . Það felst í því að bekkir og tré verði í boði hjá borginni, merkt sérstaklega einhverri minningu eða manneskju til heiðurs. Þar er til að mynda bekkur merktur minningu um að þar fór fram bónorð. „Þannig væri til dæmis hægt að kaupa bekk og staðsetja í samstarfi við garðyrkjustjóra og merkja hann til dæmis afa og ömmu sem gengu þennan stíg á hverjum degi,“ sagði hún.
Mynd frá leikvellinum við Lynghaga. Ljósmynd: Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkur.
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Fleiri verkefni með þátttöku íbúa á döfinni í Reykjavík“, Náttúran.is: 20. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/20/fleiri-verkefni-meo-thatttoku-ibua-dofinni/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.