Samráðsfundur Reykjavíkurborgar og borgarbúa um endurnýjað Miklatún verður haldinn miðvikudaginn 6. maí á Kjarvalsstöðum kl. 17:00- 19:00. Fundurinn er liður í því verkefni að móta Miklatúnið til framtíðar. „Markmiðið er að fá sem Reykvíkinga úr öllum hverfum til að segja skoðun sína á Miklatúni og koma með tillögur að borgargarði,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður umhverfis- og samgönguráðs.

Fræðsluganga um Miklatún verður mánudaginn 4. maí klukkan 18:00 þar sem landslagsarkitektar garðsins munu rekja sögu og hönnun Miklatúns og nágrennis fyrir áhugasama. Þeir sem ætla að mæta á fundinn á miðvikudaginn eru sérstaklega hvattir til að koma í göngutúrinn.

Miklatún er einn af fáum almenningsgörðum Reykjavíkinga frá fyrri tíð. Svæðið hefur sérstöðu í borginni sem blanda af borgargarði og útivistarsvæði í þéttri byggð og er ætlunin að styrkja stöðu þess. Núverandi skipulag á Miklatúni er að stofninum til frá árinu 1964. Þorbjörg Helga segist sjá Miklatún fyrir sér sem garð þar sem margir hópar geti notið sín, til dæmis þeir sem ætli í rólega kvöldgöngu, til leikja eða til að skokka svo dæmi sé tekið.

Á fundinum 6. maí verður lögð fram sú meginhugmynd að Miklatún verði staður fjölskyldunnar, íþrótta, útivistar og lista. Ráðgjafar Alta munu stjórna fundinum og svokallað heimskaffi þar sem leitað eftir hugmyndum borgarbúa um garðinn.

Kynning á helstu niðurstöðum samráðsins á Kjarvalsstöðum verður haldinn 3-4 vikum síðar. Fundurinn er á vegum starfshóps umhverfis- og samgönguráðs um endurnýjun Miklatúns. Hönnuðir hjá Landslagi ehf vinna með hópnum að skipulaginu.

Sjá nánar á vef Reykjavíkurborgar. Mynd úr Ljósmyndasafni Reykjavíkur/ Miklatún við Miklubraut á sjötta áratug 20. aldar, af vef Reykjavíkurborgar

Birt:
April 29, 2009
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Hvernig á garðurinn að vera? Samráðsfundur um endurnýjun Miklatúns“, Náttúran.is: April 29, 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/29/hvernig-garourinn-ao-vera-samraosfundur-um-endurny/ [Skoðað:Sept. 28, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: