Kristín Vala Ragnarsdóttir, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, ásamt Guðrúnu Gísladóttur, prófessor, og Brynhildi Davíðsdóttur, dósent, við líf- og umhverfisvísindadeild Háskólans, og 14 rannsóknastofnunum í Evrópu, Kína og Bandaríkjunum var nýlega úthlutað 1.200 milljón króna styrk frá Umhverfisáætlun ESB innan 7. rammaáætlunarinnar.

Þessi styrkur er veittur til þess að þróa yfirgripsmikið jarðvegsmódel sem gerir kleift að skilgreina virkni jarðvegs til að framleiða mat og trefjar, sía vatn, varðveita stöðugleika næringarefna, breyta eiturefnum, geyma kolefni og vista lífverur og gen. Vinnan tekur til  viðkvæmasta lags yfirborðs jarðar (Earth's Critical Zone) sem nær frá efstu vistkerfum lífríkisins niður í botn grunnvatns.  Hlutverk íslensku vísindamannanna er m.a. að ákvarða áhrif landnýtingar, loftslags og líffræðilegrar fjölbreytni á efnahagslegt virði jarðvegs. Verkefnið ber heitið Jarðvegsbreytingar í evrópskum vatnakerfum (Soil Transformations in European Catchments - SoilTrec) og hefst í byrjun 2010.

Samstarfsmenn Kristínar Völu í SoilTrec verkefninu eru:

Steve Banwart (University of Sheffield, Sheffield, Bretlandi) - sem stýrir verkefninu

Svetla Rousseva (N. Poushkarov Jarðvegsrannsóknastofnuninni, Sofíu, Búlgaríu)

Nikolaos Nikolaides (Tækniháskóla Krítar, Chania, Grikklandi)

Pauline van Gaans (Deltares, Utrecht, Hollandi)

Luca Montanarella (Sameiginlegri rannsóknastofnun ESB, Ispra, Ítalíu)

Peter de Ruiter (Wageningen Háskóla, Wageningen, Hollandi)

Winfried Blum (Háskóli auðlinda og lífvísinda, BOKU, Vín, Austurríki)

Brian Reynolds (Centre for Ecology and Hydrology, Wallingford, Englandi)

Stefano Bernaskoni (Tækniháskólanum ETH í Zürich, Sviss)

Martin Novak (Jarðfræðistofnun Tékklands, Prag, Tékklandi)

Bin Zhang (Jarðfræðistofnun Kínversku akademíunnar, Beijing, Kína)

Susan Brantley (Pennsylvania State University, College Park, Pennsylvaníu, Bandaríkjunum)

Lars Lundin (Sænska Landbúnaðarháskólanum, Uppsölum, Svíþjóð)

François Chabaux (Centre National de la Recherche Scientifique, Strasbourg, Frakklandi).

Kristín Vala hefur stýrt undirbúningsverkefni fyrir þessar rannsóknir sl 2 ár sem er nú að ljúka (SoilCritZone http://sustainability.gly.bris.ac.uk/soilcritzone/ ). 

Á meðfylgjandi mynd má sjá nokkra af samstarfsmönnum hennar úr SoilCritZone verkefninu (Winfried Blum, Utru Mankasingh, sem er aðstoðarmaður Kristínar Völu við Bristolháskóla, Englandi, Guðrúnu Gísladóttur, Kristínu Völu og Martin Novak) sem funda nú hér í HÍ við að skrifa lokaskýrslu fyrir SoilCritZone verkefnið. Kristín Vala er önnur t.h. á myndinni.

Birt:
7. júní 2009
Höfundur:
Háskóli Íslands
Tilvitnun:
Háskóli Íslands „Stór styrkur í jarðvegsrannsóknum“, Náttúran.is: 7. júní 2009 URL: http://nature.is/d/2009/06/07/stor-styrkur-i-jarovegsrannsoknum/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: