Má bjóða þér sláturtertu, sjávarmaríneraðar kartöfluflögur og jafnvel skola þessu niður með ísköldum rabarbarasafa? Í eftirrétt er ekki ónnýtt að gæða sér á sítrónu norðursins, íslensku gulrófunni og stinga upp í sig dísætri rabarbarakaramellu. Allt þetta var á boðstólum og meira til á stefnumóti vöruhönnuða og íslenskra bænda sem haldið var við höfnina í Reykjavík, n.t.t. á neðri hæð Sjóminjasafnsins, um miðjan marsmánuð. Tilgangurinn var að sýna gestum afrakstur samvinnu hönnuða og bænda og leyfa fólki að smakka og kaupa vörurnar.

Markmiðið með samstarfinu er að styrkja samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar með því að skapa nýja matvörur sem byggja á sérstöðu og rekjanleika. Í kjölfarið á stefnumótinu var ákveðið að þróa nánar þrjár vörutegundir sem sýndar voru.

Í haust er stefnt að því að koma sláturtertunni á markað ásamt karamellum og safa úr rabbarbara. Nú tekur við þróunarferli þar sem hugað verður m.a. að geymsluþoli, umbúðum og söluaðilum. Rannís hefur styrkt verkefnið til þriggja ára sem gerir það mögulegt að taka verkefnið skrefinu lengra.

Á efri myndinni má sjá rabbabaradrykksflöskurnar og á neðri myndinni er verið að skreyta eina af sláturtertunum.
Birt:
2. apríl 2008
Höfundur:
Bændablaðið
Uppruni:
Bændablaðið
Tilvitnun:
Bændablaðið „Hönnuðir og bændur leiða saman hesta sína“, Náttúran.is: 2. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/02/honnuoir-og-baendur-leioa-saman-hesta-sina/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 3. apríl 2008

Skilaboð: