Skín við sólu...
Baráttufundur gegn virkjunum í jökulám Skagafjarðar


Þriðjudagskvöldið 28. nóvember 2006, kl. 20:30, stendur Áhugahópur um verndun Jökulsánna í Skagafirði fyrir baráttufundi í félagsheimilinu Árgarði í Skagafirði. Þar verða m.a. flutt erindi í máli og myndum um náttúruvernd, virkjanamál og framtíð Skagafjarðar. Þá mun Óskar Pétursson, stórtenór frá Álftagerði, taka lagið. Kaffiveitingar verða á boðstólum. Samkoman er öllum opin.

Eftirtalin erindi verða flutt:
Kristín Halla Bergsdóttir, tónlistarkennari í Grænumýri, Akrahreppi, flytur erindi sem hún nefnir „Aðdráttarafl jökulsánna“. Í því ræðir hún um upplifun sína af Skagafirði - náttúru héraðsins og mannlífi.
Guðmundur Páll Ólafsson, náttúrufræðingur og rithöfundur, nefnir erindi sitt „Að ræna Héraðsvötnum“. Guðmundur Páll ætlar m.a. að fjalla um vistkerfi, jökulár og ímynd lands og þjóðar.
Arna Björg Bjarnadóttir frá Ásgeirsbrekku, sagnfræðingur og forstöðumaður Söguseturs íslenska hestsins á Hólum í Hjaltadal, kallar erindi sitt „Stefnumót við framtíðina“. Arna Björg mun í erindi sínu fjalla um framtíðarsýn sína á Skagafjörð.
Ómar Þ. Ragnarsson, fréttamaður, mun flytja hugvekju sem hann nefnir „Vötnin stríð í vestri og austri“. Umfjöllun hans, í máli og myndum, verður einkum um gildi vatnsfalla og verndun þeirra.
Magnús Pétursson, hagfræðingur, flytur erindið „Menningin á sér víða rætur„. Í því mun Magnús flytja hugleiðingar um náttúru Skagafjarðar frá menningarsögulegu sjónarhorni.
www.jokulsar.org

Birt:
24. nóvember 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Áhugahópur um verndun Jökulsánna í Skagafirði - Skín við sólu.“, Náttúran.is: 24. nóvember 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/16/skin_vid_solu/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. mars 2007
breytt: 11. maí 2007

Skilaboð: