Tvær sýningar verða opnaðar í listamannahúsinu StartArt, Laugavegi 12b, í dag og eru að sjálfsögðu hluti af dagskrá Listahátíðar í Reykjavík.

Myndlistarkonan Rúrí, sem var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2003, opnar sýningu sem nefnist Sökkvun. Titilverk sýningarinnar var upprunalega unnið fyrir listahátíðina Ars Electronica-2007 í Linz í Austurríki og er nýjasta verkið í röð Rúríar, Endangered Waters. Verkið er lofsöngur til fallvatns en um leið ámælisdómur yfir þeirri eyðileggingu sem maðurinn orsakar í nafni framfara. Sökkvun er myndbandsinnsetning á nokkrum skjáum þar sem viðfangsefnið er Töfrafoss og hið einstaka vistkerfi umhverfis hann, sem nýlega hvarf undir hækkandi yfirborð risavaxins uppistöðulóns, einn fjölmargra fossa sem orðið hafa fórnarlömb þessarar framrásar tækninnar. Rúrí kþs að nota íslensku fossana sem staðbundið sýnidæmi um þá hættu sem steðjar að náttúrunni víða um heim.

Á sama tíma verður opnuð í öðru rými hússins sýning sem ber heitið Heima, en á henni eiga verk þær Anna Eyjólfsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Magdalena Margrét Kjartansdóttir, Ragnhildur Stefánsdóttir, Þórdís Alda Sigurðardóttir og Þuríður Sigurðardóttir.

Myndin er af varpi myndverks Rúrí „Sökkvun“ í rými með sýningargestum.
Birt:
16. maí 2008
Höfundur:
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
vþ „Horfin náttúra og heimili“, Náttúran.is: 16. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/16/horfin-nattura-og-heimili/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: