Þrátt fyrir mat á umhverfisáhrifum sem Skipulagsstofnun lagði fram ný verið um að áframhaldandi efnistaka úr Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli yrði bæði neikvæð og óafturkræf hefur bæjarstjórn Ölfuss heimilað áframhaldandi efnistöku með tilheyrandi umhverfisspjöllum til a.m.k. 15 ára í viðbót.

Efnistaka úr fjallinu, sem undanfarin ár hefur teigt sig upp og yfir fjallsbrúnina og mun lækka hana um s.s. 80 metrum á um 400 metra löngum kafla auk annarra sjónrænna ummerkja, er s.s. hið besta mál að mati bæjarstjórnarinnar.

Fyrir ári síðan var lögum um mat á umhverfissáhrifum nr. 106 frá árinu 2000 breytt þannig að Skipulagsstofnun getur ekki lengur kveðið upp úrskurði heldur aðeins veitt álit. Fram að lagabreytingunni frá 11. maí ´05 sem öðlaðist gildi 1. október sama ár gat Skipulagsstofnun kveðið upp úrskurði þar sem framkvæmdir voru leyfðar eða þeim hafnað og þá úrskurði var síðan hægt að kæra. Með lagabreytingunni fer ákvarðanavaldið frá Skipulagsstofnun til viðkomandi sveitarfélaga.

Bergur Sigurðsson framkvæmdastjóri Landvernar bendir á að álit Skipulagsstofnunar hafi verið rækilega rökstutt og því hafi bæjarstjórnin valið að hunsa niðurstöðurnar vegna þrýstings hagsmunaaðila á svæðinu og þá sérstaklega Fossvéla ehf. Þessa þróun telur Bergur mjög varhugaverða og bendir á að þetta sé fyrsta umhverfismat Skipulagsstofnunar frá breytingu laganna í fyrra og gæti hún því orðið stefnumarkandi í málsmeðferð slíkra mála, nú þegar að sveitarfélögum er treyst fyrir ákvarðanatökum sem þessum. Þetta gæti leitt til þess að öll vísindaleg og viðurkennd vinna við mat á umhverfisáhrifum megi sín lítils gegn öðrum svæðisbundnum og viðskiptalegum hagsmunum í framtíðinni.


Myndin er af skarði í suðurhlíð Igólfsfjalls, séð frá þjóðvegi 1, þaðan sem mölinni er sturtað niður af fjallsbrúninni.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
13. maí 2006
Uppruni:
Skipulagsstofnun
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Ingólfsfjallsmálið - Örlög Ingólfsfjalls ráðin af bæjarstjórn Ölfuss“, Náttúran.is: 13. maí 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/21/orlog_ingolfsfj_radin/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. mars 2007
breytt: 16. maí 2007

Skilaboð: