Að kvikfénaðarrækt og fiskifang séu þeir almennu næringarútvegir og gagnlegustu til lífsbjargar á Íslandi vita allir, þeir sem landið þekkja. Bæði á fyrri öldum og nú hafa menn hér á landi kost á því að sjúga gnægð gjafarans og þá fjársjóðu, sem hyljast á mararbotni (5.Mósebókar 33. 19.). Fiskur aflast og eyðist fljótt, gjörir marga menn auðuga, færir peninga inn í landið og fæðir margan sjóbónda betur en landbú þeirra. Hann er besti partur kaupeyris danskra kaupmanna, sem færa oss marga ómissandi hluti, en landið viðhelst ekki af þeim útveg og gengur altíð af sér á meðan jörðin ræktast ekki.
Það er ekki gleðileg tilhugsun að land þetta verði eyðiklettur í sjónum til að þurrka á veiðarfæri sjómanna (Ezekíel 26. 14).1) Sjóbóndinn lifir vel og græðir á fiskifanginu á meðan það lukkast vel og sveitabóndinn færir honum allt hvað hann þarf af búmati fyrir sjóætin. En hans búskapur óhægist í báðar hliðar þegar minnst vonum varir.

1.) Vitnað er þarna hjá Ezekíel spámanni í hótum að Nebúkadnezar eyði Líbanonbirgina Tþros, geri hana að eyðikletti og þerrireit fyrir fiskinet. Í bíblíutilvísunum miðar sr. Björn Halldórsson (BH) við Þorláksbiblíu (1644) eða þá ritnningatexta, sem í samtíð hans voru prentaðir. Þykir eigi þurfa í nótum þessum að greina þar nánar á milli. Sögnin að þurka og orð leidd af henni fá ekki í sig rr í þessu bindu svo það ei kneyksli BH. Framburðurinn þurr-ka var fyrst upp fundinn 1929, þá í háði.

Annaðhvort vantar hann kaupeyri þegar sjóaraflinn bregst honum eða hann vantar kaupunaut þegar sveitabóndinn, sem réri hjá honum um vorið, hefur engan búmat að missa er hann hlutaði ekki neær fyrir útgjörðinni. 1) Þó eru sveitabóndans kjör verri þegar hann óþrífur jörð sína og lætur hana altíð spillast meir og meir, því hvar skyldi hann þá athvarf hafa er hann yfirgefur sitt eigið hreiður? Um þetta efni hefur vel skrifað, bæði eftir náttúruþekkingarreglum og margfaldaðri eigin reynslu, sýslumaðurinn í Dalasýslu, Magnús Ketilsson, og er sá lærði framkvæmdarmaður æru og þakkar verður fyrir það hann skrifað hefur og enn heldur með reynslunni sýnt hvað ábótavant sé í jarðyrkju bænda og hvernig það megi lagfæra. 2)
Hvað þennan bækling snertir þá er hann samtíningur af nokkrum tiltækjum og reglum, sem einstaka vændur brúkuðu og mér fyndust hentugar fyrir fátæka frumbþklinga. Líka reyndi ég fyrir sjálfan mig hitt og þetta, auk hins fyrra, sem mér þótti síðan betra en ekki. Nokkrum almúgameiningum með þeirra andsvari er hér stráð innan um. Þessi bæklingur mun þeim óþarfi sýnast, er langtum betur vita til búnaðar en hann kennir. En því svara ég:

1. Hann er ei skrifaður fyrir þá.

1.) Þ.e. hefur engar kvikfjárafurðir aflögu fyrst hann hafði ekki skipt nær lagi, sakir útgjörðar þeirra.
2.) Meðal rita og útgáfna, sem BH kann að hafa notað sér frá Magnúsi Ketilssyni, jafnvel fyrir lok prentunar þeirra í Hrappsey, má hér tilnefna forn Búalög (útg. 1775), Kongelige allernaadigste Forordninger (1776 og áfram), stutt ágrip um ítölu búfjár í haga (1776), Hestabit er hagabót (1776, rit, sem BH andmælir mjög í Atla), Undirvísun um sauðfjárhirðing (1778), Norsku lög (þýðing MK, útg. 1779), Nokkurar tilraunir með nokkurar sáðtegundir (1779).

2. Það var illa farið að þeir urðu ei fyrri til að skrifa um þetta efni.
3. Er hann þeim og öðrum þarfur ef hann gefur þeim orsök til.


Vilji nokkur fátækur frumbýlingur nýta eitthvað út honum þá óska ég honum verði hann að blómgan og gagni, einkanlega að hann styrkist móti röngum meiningum annara manna. En til þess þarf bæði skynsemi og svo kjark að standa af sér straum þeirra hleypidóma, sem maður er upp alinn við. Bæklingurinn er innréttaður sem samtal í millum ynigismannsins Atla 1) og gamals bónda, eftir reglum þess Konunglega Landshusholdnings-Selskab. Inntak hans er a sýna, ásamt hinu, það sem satt reynist að ekkert erfiði og enginn næringarútvegur er þarfari hér í landi en jarðyrkjan; eg meina tún- og engjarækt, og síðan það sem þar með fæðir verkamanninn. Ekkert erfiði launar betur búandanum fyrirhöfn sína, já, þar af lifir hann sæll í landinu og hans afkvæmi eftir hann. Hjá hinni ókomnu öld hefur hann sæmdarmanns nafn og með þessum dugnaði í landyrkjunni kemur hann því til leiðar að Guð fær margan þakklætisborðsálm af þeirra munni sem aldrei hefðu annars verið t il eða lifað í eymd og ánægjuleysi. Því jarðarræktin er sá rétti vegur til þess, að börnin uppalist til dygða og dugnaðar og mannfólkið fjölgi í landinu.

1) í útg. Atla 1780 hefur verið bætt inn neðanmálsgrein, sem skýrir orðsifjar mannsnafns þessa með ummælum úr Hrímgerðarmálum Eddu og úr Heimskringlu, á þessa leið: atall eður (hinn) ötuli. Helgakviða Haddingjaskata: “ Atli ek heiti; atall skal ek þér vera, mjök em ek gífrum gramastr.” – Ólafs helga saga: “ Þann kallar hann allan einn, Atla ok atsaman,” sagði Þorviður um Freyvið bróður sinn.

Úr riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal.

Birt:
22. febrúar 2015
Tilvitnun:
Björn Halldórsson í Sauðlauksdal „Til lesarans - Atli I“, Náttúran.is: 22. febrúar 2015 URL: http://nature.is/d/2009/08/30/til-lesarans-atli-i/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 30. ágúst 2009
breytt: 22. febrúar 2015

Skilaboð: