Starbucks-keðjan sem er þekkt út um allan heim hefur tekið skref í átt að umhverfisvernd. Í samstarfi við Global Green USA hefur þróast skemmtilegur leikur sem heitir Planet Green Game.

Planet Green Game er ekki bara leikur til afþreyingar heldur er hann einnig upplýsingaveita og kennir okkur að hugsa um umhverfið okkar. Leikurinn gengur út á það að kanna bæinn Evergreen og hlutverk manns er að gera bæinn umhverfisvænan. Mikilvægt er að finna leið til að minnka kolefnisúrgang og að minnka gróðurhúsaáhrifin.

Í upphafi leiksins velur maður sér karakter og gefur honum nafn. Síðan velur maður samgönguleið - helst umhverfisvæna. Hægt er að velja á milli þess að vera gangandi, á hjólabretti, hjólandi, á hybrid bíl, venjulegum bíl eða jeppling.
Karakterinn ferðast á milli staða í bænum og svarar spurningum, lærir að keyra bíl á bensínsparandi hátt og leysir ýmsar þrautir. Ein af þessum þrautum er að tala við bæjarstjórann og fá hann til að taka málin í sínar hendur.

 


 

Planet Green Game er frábært framlag og allir ættu að kíkja á þennan leik. Taktu málin í þínar hendur, gerðu Evergreen að umhverfisvænum bæ!

Einnig ráðlegg ég ykkur að skoða vefinn vel. Þar er að finna Topp10 lista yfir það hvað við getum gert fyrir umhverfi okkar.

Birt:
2. október 2007
Tilvitnun:
Móna Róbertsdóttir Becker „Planet Green Game“, Náttúran.is: 2. október 2007 URL: http://nature.is/d/2007/10/02/planet-green-game/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: