Málþing á 100 ára afmæli vatnsveitu Reykjavíkur
Í ár eru 100 ár frá því vatnsveita tók til starfa í Reykjavík og olli hún byltingu í lífsskilyrðum borgarbúa. Þessa hefur verið minnst með margvíslegum allt þetta ár sem og þess að Orkuveita Reykjavíkur er 10 ára.
Lokahnykkur hátíðarhaldanna er málþing um vatns- og veitumál. Það er haldið á morgun, föstudaginn 16. október í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi 1 og hefst kl. 13:00. Aðgangur að málþinginu er öllum opinn. Dagskrá þess má sjá hér.
Saga veitnanna kemur út á morgun
Að málþinginu loknu mun borgarstjórinn í Reykjavík fá afhent fyrsta eintak sögu Vatnsveitu, Rafmagnsveitu og Hitaveitu Reykjavíkur, en bækurnar koma út á morgun. Höfundar þeirra eru sagnfræðingarnir Hilmar Garðarsson, Lýður Björnsson og Sumarliði R. Ísleifsson.
Þá verður einnig opnuð á morgun sögusýningin „Vatnaskil, dropar úr sögu Vatnsveitunnar í 100 ár.“ Sýningin er í Galleríi 100° sem er til húsa að Bæjarhálsi 1, í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur. Á sýningunni gefur m.a. að líta kamarhurð skreytta af Jóhannesi Kjarval, listmálara.
Afmælisnefnd hefur verið starfandi frá því í byrjun afmælisársins. Í nefndinni eiga sæti þau Guðrún Zoëga sem veitt hefur starfinu forystu, Alfreð Þorsteinsson fyrrverandi stjórnarformaður Orkuveitunnar, Hólmsteinn Sigurðsson framkvæmdastjóri hjá Orkuveitunni, Jóna Gróa Sigurðardóttir fyrrverandi borgarfulltrúi í Reykjavík og Guðjón Magnússon, sviðsstjóri Umsýslu- og almannatengsla hjá fyrirtækinu.
Á fræðsluvef Orkuveitu Reykjavíkur
Margháttaðar upplýsingar og fróðleik um vatnsveituna er að finna á Fræðsluvef Orkuveitu Reykjavíkur. Hér að neðan eru tenglar á myndskeið á vefnum:
Saga vatnsveitu
Heilnæmi vatns
Vatnstökusvæði í Reykjavík
Gvendarbrunnar
Birt:
Tilvitnun:
Orkuveita Reykjavíkur „Málþing á 100 ára afmæli vatnsveitu Reykjavíkur“, Náttúran.is: 15. október 2009 URL: http://nature.is/d/2009/10/15/malthing-100-ara-afmaeli-vatnsveitu-reykjavikur/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.