Vorið komið í pedalana
Íslenski fjallahjólaklúbburinn býður landsmönnum á reiðhjóla viðgerðanámskeið
Með hækkandi sól og hlýnandi veðri gerist það árvisst að reiðhjólin eru tekin út úr bílskúrnum, keðjan smurð og hjólað af stað; nema hvað: Fljótlega kemur í ljós að gírarnir eru vanstilltir, bremsurnar ekki alveg í lagi og jafnvel rifjast það upp hvers vegna hjólið fór inn í skúr síðastliðið haust – jú það sprakk einn daginn…
Nú er lag að koma fáknum í gang fyrir sumarið, því Íslenski fjallahjólaklúbburinn opnar aðstöðu sína þrjá næstu fimmtudaga og bíður landsmönnum að njóta leiðsagnar reyndustu hjólreiðamanna landsins á viðgerðarnámskeiðum við allra hæfi.
Fyrsta námskeiðið verður að kveldi Skírdags, fimmtudaginn 9. apríl. Þar verður farið yfir grunnatriði hjólaviðgerða; hvernig gera skal við sprungið dekk, hvernig á að stilla bremsurnar og koma gírunum í lag. Hægt er að koma með sín eigin hjól eða stilla sér á meðal nemenda og hlusta vel á leiðsögnina. Fjölnir Björgvinsson, formaður Íslenska fjallahjólaklúbbsins og Árni Davíðsson, hjólafærnikennari, leiðbeina.
Íslenski fjallahjólaklúbburinn er með verkstæði sitt og félagsaðstöðu að Brekkustíg 2 þar sem eitt sinn var slökkvistöð Reykjavíkur til húsa. Námskeiðin hefjast kl. 20:00 og Garðar Erlingsson, formaður húsnefndar tekur við skráningum á námskeiðin. Þau eru þátttakendum algjörlega að kostnaðarlausu.
Þeir sem heldur vilja hittast og spjalla, fara á efri hæðina þar sem verður heitt á könnunni og tilvalið að rýna í ný útkominn Hjólhest Íslenska fjallahjólaklúbbsins; 40 síðna félagsrit sem aldrei hefur verið glæsilegra. Auk þess verður á skjánum myndband um viðhald reiðhjóla.
Birt:
Tilvitnun:
Sesselja Traustadóttir „Vorið komið í pedalana“, Náttúran.is: 8. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/08/vorio-komio-i-pedalana/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.