Dr. Karl Ægir Karlsson, lektor í tækni- og verkfræðideild H.R., hafði umsjón með samræðu og vinnslu útgangspunkta á vinnuborði um líftækni. http://www.karlsstofa.is/?page_id=5
3. Neisti - Tryggjum líftækni bakland
Stöðugleiki gjaldmiðils og markaðar
Heimila þarf fyrirtækjum að skrá hlutafé sitt og gera upp í erlendri mynt (a.m.k. evrum).
Mikilvægustu sprotafyrirtækin eru útflutningsfyrirtæki með markaði erlendis og tekjumyndun í erlendri mynt. Það er þeim mikilvægt að búa við þann aga sem felst í uppgjöri í stöðugri mynt. Það er líka forsenda þess að fá eðlilegt fjárstreymi fjárfesta til landsins.
Leggja þarf niður krónuna sem fyrst. Það er nánast óhugsandi að fá eðlilegt flæði erlends fjármagns til smærri fyrirtækja meðan landið hefur eigin gjaldmiðil.
Aukinn fjárstuðningur við smáfyrirtæki
Auka þarf fjárframlög til Tækniþróunarsjóðs.
Það verður að gefa smáfyrirtækjum kost á að fá (viðbótar)styrki sem þau nýta til að kaupa rannsóknir af háskólunum. Þetta flýtir einnig fyrir uppbyggingu öflugra háskóladeilda.
Afnema kröfur um mótframlag fyrir smáfyrirtæki.
Tryggja þarf þátttöku ríkisins í fjárfestingum í nýjum fyrirtækjum.
Nýr sjóður taki við af Tækniþróunarsjóði - styrkir eða víkjandi eigið fé.
Þátttaka ríkisins í fjármögnun einkarekinna sjóða, t.d. með beinu mótframlagi í slíka sjóði, víkjandi lánveitingu inn í einstök verkefni, eða ábyrgðir á bankafyrirgreiðslum. Mörg fordæmi eru fyrir slíku fyrirkomulagi í Bandaríkjum og Evrópu.
Gefa þarf skattaívilnanir; t.d. með endurgreiðslu á VSK, endurgreiðslu vegna rannsókna, þróunar eða styrkja, og gera auðveldara fyrir smáfyrirtæki að selja skattalegt tap. Sala á skattalegu tapi eykur hrakvirði nýsköpunarfyrirtækja og eykur líkur á endurnýtingu hugverkaréttar (IP). Mörg fordæmi í nágrannalöndum eru fyrir skattaniðurfellingu eða endurgreiðslum. Mikilvægt er að félög og fyrirtæki sem eru í rannsóknar- og þróunarvinnu, sem eðli máls samkvæmt tekur tíma, geti fengið skattaívilnanir. Hér á landi eru ekki neinar sérstakar skattfríðindareglur fyrir slíkt eins og í sumum nágrannalöndum okkar, t.d. í Noregi. Fólk sem flytur til Íslands til þess að stunda rannsóknir og greiðir tekjuskatt þarf að hugsa sig vel um, því það hefði ekki þurft að greiða slíkan skatt hefði það áfram búið til dæmis í Cambridge, Princeton eða Stanford.
Bætt stuðningsumhverfi
Hundruð Íslendinga eru með doktorsgráður og rannsóknar- og starfsreynslu í verkefnum í líftækni sem eru á heimsmælikvarða. En sú reynsla hefur ekki skilað sér til íslensku háskólanna, sem þurfa að leita til sérfræðinga innan líftæknifyrirtækja til að fá upplýsingar um vísindin, tækniþekkingu og tækjakost og jafnvel að fá kennslu. Góð aðstaða, sérþekking og kunnátta er frekar innan fyrirtækja heldur en innan háskólanna í núverandi ástandi. Nægir að nefna að eitt fyrirtæki á sviði erfðafræði birtir fleiri greinar á ári en allir háskólarnir samanlagt. Stórefla þarf háskóla landsins og leggja sérstaka áherslu á líftækni, verkfræði og tölvutækni. Nauðsynlegt er að háskólarnir verði það bakland sem líftækni þarfnast og geti veitt sprotafyrirtækjum skjól. Uppbygging háskóladeilda á sviðinu felur meðal annars í sér að efla áherslur á rannsóknartengt nám, nýsköpun og áhættusækni. Fjölga þarf erlendum nemendum til að stækka háskólana og auka samkeppni og gæði náms.
Hvetja þarf orkufyrirtæki til að horfa á "almennan" iðnað sem kaupendur frekar en orkufrekan iðnað. Gera þarf hagfelldara fyrir orkufyrirtæki að taka þátt í iðngörðum eða sprotagörðum og afnema ívilnanir fyrir þátttöku í orkufrekri stóriðju.
Straumlínulaga regluverk
Mikilvægt er að regluverk séu straumlínulöguð og er það ástæða til að endurskoða núverandi reglugerðir til að bæta umhverfi sprota- og líftæknifyrirtækja. Svifaseint regluverk kemur beint niður á samkeppnishæfni, nýsköpun og tækifærum til atvinnusköpunar. Skþrt og skilvirkt reglugerðarumhverfi er því mikilvægur þáttur ákjósanlegs vaxtaumhverfis fyrir sprota- og líftæknifyrirtæki.
Notkun heilbrigðisupplýsinga
Heilbrigðisrannsóknir byggja sífellt meir á úrvinnslu upplýsinga frá fjölda einstaklinga sem skráður eru í gagnagrunna. Íslendingar eru í góðri stöðu til þess að vera í fylkingarbrjósti í þessari þróun. Styðja þarf þróun hugbúnaðarkerfa fyrir skráningu heilbrigðisupplýsinga innan háskóla, sprotafyrirtækja og með auknum fjárveitingum til upplýsingatæknimála hjá heilbrigðisstofnunum. Ennfremur þarf kerfi sem hvetur stofnanir til að staðla og samnýta upplýsingar í stað þess að einangra þær. Samhliða þarf að einfalda þau eftirlitskerfi með líftækniþróun sem þegar eru til og gera þau skilvirkari. Gagnagrunna sem til eru á Íslandi má reka undir formerkjum háskóla eða sjálfstæðra rannsóknarstofnana (non-profit). Með þessu bætta fyrirkomulagi má laða bæði rannsóknarfjármagn og vísindafólk til landsins.
Í hnotskurn
Tryggja þarf fjárhagslegt, þekkingarlegt og reglugerðarlegt umhverfi líftæknifyrirtækja með stöðugum gjaldmiðli, styrkum innnlendum háskóladeildum og straumlínulaga regluverki. Endurskoða þarf kerfi skattaívilnunar og styrkjaveitinga og auðvelda aðgengi erlendra sérfræðinga til landsins. Beina þarf orkufyrirtækjum að sprotafyrirtækjum í líftækni og afnema ívilnanir fyrir þátttöku í orkufrekri stóriðju.
Björk Guðmundsdóttir boðaði til vinnufunda 12. og 19. október sl. í samvinnu við HR, Klak og nattura.info. Um hundrað sérfræðingar á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar réðu ráðum sínum og gerðu drög að átta tillögum um úrbætur í jafnmörgum málaflokkum.
Mynd: Græn smiðja Orf líftæknis í Grindavík.
Birt:
Tilvitnun:
Neisti „3. Neisti - Tryggjum líftækni bakland“, Náttúran.is: 15. nóvember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/11/23/3-neisti-tryggjum-liftaekni-bakland/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 23. nóvember 2008
breytt: 24. nóvember 2008