Þótt ný leg IMG-Gallupkönnun hafi sýnt að 90% landsmanna vilji að erfðabreytt matvæli séu merkt veldur aðgerðaleysi stjórnvalda á þessu sviði því að neytendum er enn ekki tryggður grundvallarréttur til valfrelsis um þau matvæli er þeir velja fjölskyldum sínum. Erfðabreytt matvæli eru nær örugglega á boðstólum í flestum íslenskum matvörubúðum, án þess að þau séu auðsjáanleg neytendum þar sem þau eru ekki merkt. Þessu er öfugt farið í Evrópulöndum, en öll 25 aðildarríki ESB krefjast merkinga á erfðabreyttum matvælum. Hið sama á við um mörg önnur ríki s.s. Noreg, Sviss, Rússland, Japan, Suður Kóreu, Ástralíu, Nýja Sjáland og Brasilíu. M.a.s. lönd eins og Kína, Indónesía og Hvíta Rússland, sem ekki eru þekkt fyrir lýðræðislegt stjórnarfar, hafa sett reglugerðir sem tryggja merkingar erfðabreyttra matvæla.

Vegna aðildar sinnar að EES ber Íslandi að taka upp reglugerðir ESB um erfðabreytt matvæli. Þrjár reglugerðir ESB um merkingar erfðabreyttra matvæla (nr. 258/1997, nr. 1139/1998 og nr. 1829/2003) hafa samt ekki verið teknar upp, þótt sú elsta sé frá árinu 1997. Noregur er eins og Ísland aðili að EES, en hefur sýnt meiri ábyrgð gagnvart neytendum með því að setja löggjöf um merkingar erfðabreyttra matvæla. Hversvegna hefur Umhverfisráðuneytið æ ofan í æ látið hjá líða að lögfesta reglugerðir um merkingar erfðabreyttra matvæla þrátt fyrir fyrirheit þar um?

ESB verndar neytendur
Öll matvæli og dýrafóður á mörkuðum ESB sem innihalda meira en 0,9% af erfðabreyttum efnum eru merkt sérstaklega með orðunum ‘erfðabreytt’ eða ´framleitt úr erfðabreyttu …’, ýmist í innihaldslýsingu eða annars staðar á umbúðum. Íslenskir neytendur geta með góðri vissu keypt matvæli innflutt frá ESB-löndum, bæði vegna þess að þau eru merkt og vegna þess að svo fáar evrópskar vörur innihalda erfðabreytt hráefni. Evrópubúar vilja almennt ekki neyta erfðabreyttra matvæla, og þar af leiðandi eru þau almennt ekki framleidd af matvælafyrirtækjum eða á boðstólum verslana í Evrópu. Jafnvel ´bandarísk´ matvæli framleidd í Evrópu samkvæmt sérleyfi eru án erfðabreyttra efna.

Erfðabreytt matvæli frá Bandaríkjunum og Kanada eru ómerkt
Mikill meirihluti erfðabreyttra matvæla á heimsmarkaði er framleiddur í Bandaríkjunum og Kanada, sem hvorugt krefjast þess að erfðabreyttra efna sé getið á vörumerkingum. Þetta veldur íslenskum neytendum vandræðum. Fjöldi stórmarkaða og matvörubúða hér á landi selja matvæli sem framleidd eru í þessum löndum og verulegar líkur eru á því að stór hluti þeirra innihaldi erfðabreytt efni. Þeir sem vilja forðast erfðabreytt geta það ekki vegna þess að efnanna er hvergi getið á merkingum, og eiga þeir því um tvo kosti að velja:

  • að kaupa ekki matvæli sem framleidd eru í Bandaríkjunum og Kanada, en kaupa þess í stað eingöngu matvæli frá Evrópu eða öðrum löndum sem merkja erfðabreytt matvæli; þeir sem fara þá leið þurfa ekki að óttast færri valkosti; Evrópa framleiðir flestallar mögulegar tegundir matvæla; ólíklegt er að bandarískar vörur framleiddar í Evrópu samkvæmt sérleyfum innihaldi erfðabreytt efni og ef svo væri þá væru þær merktar;
  • að afla sér þekkingar á því hvers konar erfðabreytt matvæli berast frá Norður Ameríku; einkum er gagnlegt að muna að næstum öll erfðabreytt matvæli sem eru á boðstólum eru unnar afurðir, m.ö.o. ekki ferskar vörur heldur vörur seldar í dósum, flöskum og ýmiss konar öskjum; neytendur sem kaupa unna vöru ættu að kanna upprunaland hennar; ef varan er framleidd í Norður Ameríku er hugsanlegt að hún innihaldi erfðabreytt efni – og geta neytendur þá t.d. kannað hvort varan er á skrá um erfðabreyttar matvörur á neðangreindri vefsíðu.

Hvernig er unnt að greina ómerkt erfðabreytt matvæli?
Vefsíðan “The True Food Network” birtir leiðarvísi neytenda um erfðabreytt matvæli framleidd í Bandaríkjunum (sjá www.truefoodnow.org/shoppersguide/ ). Þessi leiðarvísir er gagnlegur fyrir almenna neytendur sem forðast vilja kaup á erfðabreyttum matvælum og ekki síður fyrir innflytjendur og kaupmenn sem vilja komast hjá því að flytja inn og selja slíkar vörur. En leiðarvísirinn gengur lengra – þar er ekki aðeins skrá um erfðabreytt matvæli eftir vörumerkjum heldur einnig skrá um valkosti sömu vörutegunda sem ekki innihalda erfðabreytt efni.

Í meðfylgjandi töflu eru nefnd dæmi úr leiðarvísi þessum um matvæli framleidd í Bandaríkjunum sem innihalda erfðabreytt efni. Það kann að koma íslenskum neytendum í opna skjöldu að flestar þessar tegundir erfðabreyttra matvæla eru að jafnaði á boðstólum í stórmörkuðum og matvörubúðum hér á landi – ómerkt.

Vöruflokkur

Framleiðandi

Vörumerki

Barnamatur

Nestle

Carnation smábarnaformúlur

 


Mead Johnson

Enfamil smábarnaformúlur

Bökunardeig/blöndur

Quaker

Aunt Jemina blöndur

 


General Mills

Betty Crocker blöndur, Bisquick blöndur

Morgunkorn

Kelloggs

Corn Flakes, Special K, Rice Crispies

 


General Mills

Cheerios, Wheaties, Total, Trix

Súkkulaði

Mars

Milky Way, Twix, Snickers, M&M

Matarauki/bragðauki

Heinz

Ketchup, Chili Sauce, 57 Steak Sauce

 


ConAga

Hunts Ketchup

 


Kraft

Miracle Whip, Mayonnaise, BBQ Sauces

Smákökur/kex

Nabisco/P.Morris

Oreo, Fig newtons, Lorna Doone,

 


Keebler

Chocolate chip, Oatmeal, Sesame Street

Osta/tekex

Nabisco/P. Morris

Ritz, Triscuits, Wheat Thins, Wheatsworth

 


Keebler

Town House, Club, Wheatables, Munch’ems

Sósur í pökkum

Bestfoods

Knorr (allar tegundir)

Kornblöndur

Quaker

Near East, Pasta Roni, Rice-a-Roni

Frosin pizza

Pillsbury

Totino’s (allar tegundir)

 


Aurora Foods

Celeste (sex tegundir)

Gosdrykkir

Coca Cola

Coca Cola, Sprite, Cherry coke

 


PepsiCo

Pepsi, Slice, Wild Cherry Pepsi

 


Cadbury/Schweppes

7-Up, Sunkist Orange, Ginger Ale

Ávaxta/grænmetissafar

Ocean Spray

Ocean Spray safar (allar tegundir)

 


Procter & Gamble

Hawaiian Punch (fjórar tegundir)

 


Campbells

V-8 safar (allar tegundir)

Súpur

Campbells Campbells súpur (allar tegundir)

Lífræn matvæli öruggasta leiðin til að forðast erfðabreytt matvæli
Besta aðferðin til að forðast neyslu erfðabreyttra matvæla er að neyta lífrænna afurða. Reglur um lífræna ræktun eru í grunninn þeir sömu um allan heim hvað varðar bann við notkun erfðabreyttra lífefna. Önnur leið til að forðast neyslu erfðabreyttra lífvera er að leggja áherslu á fersk matvæli. Einungis þrjár tegundir erfðabreyttrar ferskvöru eru nú á markaði og allar eru þær ræktaðar í Bandaríkjunum: Erfðabreytt Hawaisk melóna (papaya), erfðabreytt grasker (zucchini) og erfðabreytt gult grasker (yellow squash). Þessar tegundir erfðabreytts grænmetis eru ekki seldar í Evrópu, en má hugsanlega finna í grænmetisborðum íslenskra matvöruverslana.

Upplýsingar eru lykillinn að upplýstum innkaupum
Neytendur geta aflað sér fróðleiks um hvaða tegundir matvæla kunni að vera erfðabreyttar. Fjórar helstu tegundir erfðabreyttra nytjaplantna sem nú eru ræktaðar í heiminum eru soja, maís, olíurepja og bómull. Bandaríkin eru stærsti framleiðandi heims á erfðabreyttum matvælum, en 85% af soja, 76% af bómull, 75% af olíurepju og 40% af maís sem þar eru framleidd eru erfðabreytt. Þessi hráefni eru notuð í alls kyns matvælum, sum lítið unnin og önnur mjög mikið unnin. Til dæmis eru erfðabreytt maís og soja lítt unnin við mjölframleiðslu. Allar áðurnefndar fjórar tegundir eru talsvert meira unnar við framleiðslu á olíum og sýrópi, en mjög mikið unnar við framleiðslu á aukefnum s.s. þykkjunarefnum, bragðefnum, litarefnum, vítamínum, varðveisluefni, geymsluefni og bindiefni. Almennt séð, því meir sem erfðabreytt hráefni er unnið, þeim mun minna er eftir af hinu erfðabreytta efni (DNA) í lokaafurðinni – og þeim mun minni er heilsufarsáhættan af neyslu þeirra.

Í eftirfarandi töflu eru tilgreind matvæli, sem framleidd eru úr fjórum helstu erfðabreyttu nytjaplöntum sem ræktaðar eru í heiminum um þessar mundir. Vörunum er raðað eftir því hve mikið þær eru unnar: Þær sem minnst eru unnar (og fela í sér mesta áhættu fyrir heilsufar) eru efst í hverjum flokki, en þær sem mest eru unnar eru neðst.

     
Meginhráefni Vöruflokkur Vörutegund
  Maísstönglar Maískorn
Erfðabreyttur Maísmjöl Morgunkorn (Kornfleks); snakkfæða (Tacoshells
Maís   & maísflögur); fyllingarefni í hamborgara & pylsur
  Maísduft Maísbrauðdeig, Maísmuffindeig
  Maíssterkja Þykkingarefni í súpur og sósur
  Maísolía Eldunarolía, salatsósur/kryddlögur (dressing), smjörlíki
  Maíssýróp Bakaðir eftirréttir, bragðauki/matarauki s.s. tómatsósa
  Aukefni Dextrósi/glúkósi, frúktósi, maltósi og dextrin
  Sojabaunir Tófú, sojadrykkir (mjólk), smábarnablanda,
Erfðabreytt   mísó, sojamjöl
Soja Sojaprótein Sojasósa, tamarísósa, krydd (seasonings),
    súputeningar (hydrolised)
  Sojamjöl og semolinamjöl Pasta, brauð, bakaðar vörur, snakk
  Sojaprótein Kjötlíki, súpur, sósur, megrunarfæði, mjólkurlíki
  Sojaolíur, fituefni Smjörlíki, jurtaolíur, hnetusmjör, majones,
    rjómaís, frosin jógúrt
  Aukefni Lesitín (E322) og E-vítamín
    (notuð í fjölda unninna matvæla)
Erfðabreytt Repjuolía ‘Canola’ eldunarolía, smjörlíki
Olíurepja Aukefni E-vítamín og bindiefni
    (notuð í fjölda unninna matvæla)
Erfðabreytt Bómullarolía Jurtaolía, (notuð í djúpsteikingu skyndifæðis)
Bómull   smjörlíki, frystar og tilbúnar máltíðir
  Aukefni Sellulósi E460 og metþlsellulósi E461
    (notuð í fjölda unninna matvæla)

Birt:
9. júní 2009
Höfundur:
Neytendasamtökin
Tilvitnun:
Neytendasamtökin „Hvernig má forðast erfðabreytt matvæli?“, Náttúran.is: 9. júní 2009 URL: http://nature.is/d/2007/05/03/hvernig-m-ast-erfabreytt-matvli/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 3. maí 2007
breytt: 9. júní 2009

Skilaboð: