Styrkjum var í fyrsta sinn úthlutað úr Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar stofnanda Hagkaups í dag. 32 umsækjendur hlutu styrki fyrir samtals tæplega 26 milljónir króna. Meðal styrþega er Grasa-Gudda, vefuppflettirit um íslenskar jurtir og notkun þeirra fyrr og nú, en Grasa-Gudda er hugarfóstur Guðrúnar Tryggvadóttur frumkvöðuls Náttúran.is og verður hluti af upplýsingamiðluninni hér á vefnum.

Fjöldi umsókna þótti til marks um hve náttúra Íslands er mörgum hugleikin og umhverfismál í víðu samhengi þykja miklu skipta, en alls bárust sjóðnum 175 styrkbeiðnir er námu samtals rúmlega 460 milljónum króna. Stjórn sjóðsins var nokkur vandi á höndum og mörgum góðum umsóknum varð að hafna.

Lilja Pálmadóttir stofnaði Náttúruverndarsjóð Pálma Jónssonar vegna einlægs áhuga á náttúruvernd og jafnframt til að heiðra minningu föður síns sem ávallt sýndi djúpa virðingu fyrir náttúrunni og umhverfi sínu. Með Lilju eru í stjórn sjóðsins Skúli Skúlason rektor Háskólans á Hólum og Guðmundur Oddur Magnússon prófessor við Listaháskóla Íslands.

Markmið sjóðsins er að auka almenna þekkingu á íslenskri náttúru svo að umgengni okkar og nýting á verðmætum hennar geti í ríkari mæli einkennst af virðingu og skynsemi. Samhliða er leitast við að bæta tengsl Íslendinga við náttúru landsins og efla með því gott hugarfar, mannlíf og atvinnustarfsemi í sátt við umhverfið.

Markmiði þessu verði náð með því að styrkja verkefni sem fást við sköpun og miðlun þekkingar um náttúruna í víðum skilningi. Farvegurinn getur verið í gegnum listir, hvers kyns fræði og vísindi.

Ætlunin er að úthluta styrkjum úr sjóðnum ár hvert.

Styrkþegar úr Náttúrverndarsjóði Pálma Jónssonar árið 2009 eru: 110.000

Hrafnagilsskóli / Karl Frímannsson
Smíði fuglaskoðunarhúss
Húsið mun nýtast nemendum og almenningi til fuglaskoðunar.

250.000

Anna Sigríður Valdimarsdóttir
Gróður í Viðey í Þjórsá
Könnun á gróðri í beitarfriðaðri eyju í Þjórsá og samsvarandi landi beggja vegna árinnar. Nemendaverkefni.

300.000

Sigríður Ólafsdóttir - Háskólasetur Vestfjarða
Fagleg úttekt á umhverfismati, áhrifum og stjórnsýsluramma starfseminnar
Leyfisveiting fyrir malarnám á hafsbotni Hvalfjarðar árið 2009

Langholtsskóli / Hreiðar Sigtryggsson og Vilhelmína Þ. Þorvarðardóttir
Útikennsla í túnfætinum – útikennslustofa
Markmiðið að auka sýn nemenda og skólasamfélagsins á umhverfi og náttúru og nemendur læri að umgangast hana og rannsaka.

Brynja Davíðsdóttir
Þróun aðferða við vöktun algengra mófugla
Dægur- og sumarsveiflur kortlagðar í þessu skini. Nemendaverkefni

Eysteinn Björnsson
Sögur fyrir börn og unglinga um náttúruna
Tilgangurinn er að vekja og efla áhuga barna og unglinga á náttúrunni með sagnalist

Náttúrusetur á Húsabakka / Hjörleifur Hjartarson

Náttúrusetur á Húsabakka
Uppbygging setursins er sný r að grunnskóla- og leikskólabörnum.

500.000

Sigríður Klara Böðvarsdóttir
Einangrun erfðavísis glólita í íslenska hestinum
Til að unnt sé að varðveita eiginleikann – þ.e. hinn fágæta glólit – er mikilvægt að einangra erfðavísinn fyrir honum.

Náttúran ehf / Guðrún Arndís Tryggvadóttir
Grasa-Gudda
Vefuppflettirit um íslenskar jurtir og notkun þeirra fyrr og nú.

Edda Valborg Sigurðardóttir
Stafrófið í íslenskum blómum
Myndabók sem ætluð er 4-8 ára börnum með hnitmiðuðum texta um blóm

Kristín Norðdahl
Hlutverk útiumhverfis í menntun barna
Rannsókn á hlutverki útiumhverfis í menntun barna. Doktorsrannsókn.

Ólöf Nordal
Fuglaþúfur
Stækkun og frágangur á ljósmyndum af fuglaþúfum í Vestmannaeyjum.

Opið út / Charlotte Böving
Vatn
Leiksýning um vatn; mikilvægi þess, margbreytileika og töfra.

Melrakkasetur Íslands    / Ester Unnsteinsdóttir
Melrakkar í náttúru Íslands
Söfnun og miðlun upplýsinga um íslensku tófuna.

Þorvarður Árnason
Breði
Stuttmynd um áhrif loftslagsbreytinga á skriðjökla á Suðausturlandi, einkum Hoffellsjökul.

Hið íslenska náttúrufræðifélag / Kristín Svavarsdóttir
Ljósmyndun gamalla árganga Náttúrufræðingsins
Gömlum heftum Náttúrufræðingsins komið á rafrænt form og gert aðgengilegt á veraldarvefnum.

Náttúrustofa Norðurlands vestra
Uppsetning fuglaskoðunarskþla við Sauðárkrók
Tilgangur að efla náttúruskoðun almennings og bæta aðstæður vísindamanna. Fuglalíf er auðugt í Skagafirði og votlendissvæðin þar eru víðáttumikil og mjög mikilvæg.

Marta G. Daníelsdóttir

Þróun námsefnis til útikennslu í náttúruperlunni Gróttu
Markmiðið er að auka möguleika leik- og grunnskólabarna á útikennslu í Gróttu. Verkefnið felst í námsefnisgerð, móttöku nemenda og mati.

750.000

Ferðamáladeild Háskólans á Hólum / Hjalti Þórðarson
Gerð göngukorta á Tröllaskaga
Stefnt er að því að gefa út fimm kort af svæðinu en þegar eru komin út tvö sem hafa fengið góðar viðtökur og sérstaklega góða dóma göngufólks.  

850.000

Borgný Katrínardóttir    
Mikilvægi hálfgróinna áreyra á Íslandi fyrir heimsstofn spóa
Rannsókn þar sem gerður er samanburður áreyrum og öðrum búsvæðum spóa svo álykta megi um búsvæðaþarfir hans. Mastersverkefni

1.000.000

Helga Ögmundardóttir

The shepherds of Þjórsárver
Samspil og átök um nýtingu og viðhorf til Þjórsárvera í sögulegu, menningarlegu og pólitísku ljósi. Doktorsverkefni

Aðalheiður Jóhannsdóttir
Íslenskur umhverfis- og auðlindaréttur
Rannsókn, lýsing og skýring á íslenskum réttarreglum á sviði umhverfis- og auðlindaréttar með sérstaka áherslu á miðlun þekkingar til þeirra sem starfa að eða hafa áhuga á umhverfismálum.

Hugmyndaflug ehf / Ómar Ragnarsson
Sköpun jarðar og ferðir til mars
Kvikmynd um svæðið í kringum Leirhnjúk og Gjástykki norðan Kröflu og hugmyndir um virkjanaframkvæmdir. Á svæðinu er æfingasvæði fyrir marsfara framtíðarinnar!

Guðbjörg Rannveig Jóhannesdóttir
Fagurfræðileg upplifun af jöklasvæðum
Rannsókn þar sem markmiðið er að öðlast skilning á merkingu landslags og þeim gildum sem eru tengd við fagurfræðilega upplifun af íslenskri náttúru. Hluti af doktorsverkefni.

Sigrún Helgadóttir
Þingvellir, þjóðgarður og heimsminjar
Ritun bókar í bókaflokknum Friðlýst svæði á Íslandi. Í bókunum er leitast við að vekja áhuga fólks á svæðunum, fá lesendur til þess að skilja mikilvægi þeirra og um leið vekja áhuga á að vernda þau.

Framtíðarlandið / Hrund Skarphéðinsdóttir
Náttúrukortið
Upplýsingaveita / vefkort um svæði á Íslandi sem hafa verið nýtt eða fyrirhugað er að nýta til orkuframleiðslu.

Hálendisferðir / Ósk Vilhjálmsdóttir

Náttúruskóli
Námskeið og hálendisferðir fyrir börn og unglinga þar sem tilgangurinn er að efla tengsl þátttakenda við landið og náttúruna.

Landvernd / Björgólfur Thorsteinsson
Skólar á grænni grein
Verkefnið gengur út á að efla tengsl ungdómsins í landinu við umhverfi sitt og náttúru landsins og efla hann í að geta rætt um og tekið ábyrga afstöðu í umhverfismálum.

1.500.000

Thelma Björk Jóhannesdóttir
Að græða eða græða - frá tvíhyggju til fjölhyggju - um gildi náttúrunnar
Rannsókn á viðhorfum sem birtast í umræðu og ákvarðanatöku um náttúruvernd á Íslandi. Mastersverkefni.

Kvik, kvikmyndagerð ehf / Páll Steingrímsson

Sá guli
Heimildamynd um lífshlaup þorsksins, stutt forsaga sjávarútvegs á Íslandi og lýsing á veiðum og vinnslu.

3.000.000

Snorri Baldursson            
Lífríki Íslands: Vistfræði lands og sjávar
Ritun bókar sem lýsir á aðgengilegan hátt uppruna, gerð og starfsemi íslenska lífríkisins og sambúð þjóðarinnar við það.

Gunný óra Ólafsdóttir
Að ferðast um náttúru Íslands
Ritun bókar fyrir lærða og leika sem byggir á doktorsrannsókn Gunný óru á áhrifum ferðalaga um náttúruleg svæði líðan fólks.
Birt:
June 11, 2009
Höfundur:
Náttúran er
Tilvitnun:
Náttúran er „Styrkjum úthlutað úr Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar“, Náttúran.is: June 11, 2009 URL: http://nature.is/d/2009/06/11/styrkjum-uthlutao-ur-natturuverndarsjooi-palma-jon/ [Skoðað:Sept. 28, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: