Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar og Landvernd hafa gert með sér samning til þriggja ára um alþjóðlega verkefnið Vistvernd í verki. „Allir geta gert eitthvað, einn flokkað betur úrgang, annar dregið úr orkunotkun á heimilinu og sá þriðji getur breytt ferðavenjum sínum,“ segir Eygerður Margrétardóttir.

Vistvernd í verki felur í sér lífsstíll sem hefur góð áhrif á umhverfi, heilsu og fjárhag. „Hver og einn metur hvað hann treystir sér til að gera til að breyta heimilishaldinu og draga með því úr álagi á umhverfið,“ segir Eygerður Margrétardóttir framkvæmdastjóri Staðardagskrár 21 hjá Reykjavíkurborg. Samingurinn veitir borgarbúum gott tækifæri til að taka þátt í visthópum þar sem kennt er hvernig best þykir að spara rafmagn og aðra orku, vatn, flokka úrgang, draga úr mengun frá ökutækjum og að endurskoða innkaup heimilisins.

Allir vilja spara í matvælainnkaupum, eldsneyti og margir vilja endurskoða ferðavenjur og læra að flokka. Verkefnið er ætlað þeim sem vilja tileinka sér vistvænan og nægjusaman lífsstíl. „Á námskeiðum hjá okkur er lögð áhersla á að fólki breyti hegðun sinni skref fyrir skref, “ segir Sigrún Pálsdóttir verkefnisstjóri hjá Landvernd.

Vistvernd í verki er alþjóðlegt samfélagsverkefni sem hefur sjálfbæra þróun að leiðarljósi og það rímar vel við stefnumótun borgarinnar í átt að sjálfbæru samfélagi. Verkefnið er eitt fárra af þessum toga sem hlotið hefur viðurkenningu UNESCO.

Sjá nánar um Vistvernd í verki.

Birt:
9. september 2009
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Lífsstíll sem sparar orku og peninga “, Náttúran.is: 9. september 2009 URL: http://nature.is/d/2009/09/09/lifsstill-sem-sparar-orku-og-peninga/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: