Efla þarf alþjóðlegt rannsóknarstarf
Styðja þarf enn frekar við öfluga rannsóknarstarfsemi í landinu til að tryggja framgang og gæði íslenskra rannsókna í ljósi alþjóðlegra viðmiða. Auka þarf samstarf við erlendar rannsóknarstofnanir, háskóla, lista- og fræðimenn. Endurskoða þarf núverandi styrkjakerfi og stórauka opinberar fjárveitingar. Góður skilningur á sérstöðu Íslands hvað varðar rannsóknir krefst greiningar og samanburðar við sérstöðu erlendra háskóla og annarra menningarheima. Alþjóðlegar rannsóknir hér á landi vinda ofan af einsleitri þjóðernisímynd og styrkja Ísland sem öflugt fjölmenningarsamfélag.
Aukið samstarf milli menntastofnana
a. Auka þarf samstarf á milli íslenskra menntastofnana. Menntasamfélagið er lítið og þótt heilbrigð og jákvæð samkeppni ríki á mörgum sviðum þarf að ryðja úr vegi hömlum sem hindra fræðimenn og nemendur innan mismunandi stofnana í að starfa saman. Gera þarf nemendum og fræðimönnum kleift að stunda ekki eingöngu þverfaglegar rannsóknir, heldur líka þverstofnanalegar rannsóknir. Til þess að svo megi verða þarf að endurskoða matskerfi háskólastofnana og stoðkerfi í formi styrkja. Jafnframt væri hjálplegt að kortleggja háskólaumhverfið á Íslandi og gera grein fyrir sérstöðu og styrk hverrar stofnunar fyrir sig.
b. Háskólar og aðrar menntastofnanir landsins gætu með öflugu samstarfi þróað nýjar námsleiðir fyrir innlenda og erlenda nemendur. Námsleiðir er gæfu nemendum einstakt tækifæri til fjölbreyttra upplifana þar sem saman færu vönduð námskeið, staðbundnar rannsóknir og spennandi ferðalög um byggðir og óbyggðir landsins. Þannig gæti nemandi t.d. sótt nám sitt í háskóla á Reykjavíkursvæðinu en dvalið um tíma í Svartárkoti - fræðasetri í Bárðardal, og fræðst þar um sambúð manns og náttúru eða farið til Háskólasetursins á Vestfjörðum til þess að fræðast um sjálfbæra nýtingu náttúrauðlinda sjávar. Slíkt samstarf mundi efla menntastofnanir víðsvegar um landið og skapa framtíðarstörf fyrir íslenskt menntafólk. Með því að stuðla að komu erlendra nemenda til landsins með markvissum hætti yrði sáð fræjum fyrir auðugra menntalífi hér á landi og fjölgun erlendra gesta.