Efla þarf alþjóðlegt rannsóknarstarf
Styðja þarf enn frekar við öfluga rannsóknarstarfsemi í landinu til að tryggja framgang og gæði íslenskra rannsókna í ljósi alþjóðlegra viðmiða. Auka þarf samstarf við erlendar rannsóknarstofnanir, háskóla, lista- og fræðimenn. Endurskoða þarf núverandi styrkjakerfi og stórauka opinberar fjárveitingar. Góður skilningur á sérstöðu Íslands hvað varðar rannsóknir krefst greiningar og samanburðar við sérstöðu erlendra háskóla og annarra menningarheima. Alþjóðlegar rannsóknir hér á landi vinda ofan af einsleitri þjóðernisímynd og styrkja Ísland sem öflugt fjölmenningarsamfélag.

Aukið samstarf milli menntastofnana
a. Auka þarf samstarf á milli íslenskra menntastofnana. Menntasamfélagið er lítið og þótt heilbrigð og jákvæð samkeppni ríki á mörgum sviðum þarf að ryðja úr vegi hömlum sem hindra fræðimenn og nemendur innan mismunandi stofnana í að starfa saman. Gera þarf nemendum og fræðimönnum kleift að stunda ekki eingöngu þverfaglegar rannsóknir, heldur líka þverstofnanalegar rannsóknir. Til þess að svo megi verða þarf að endurskoða matskerfi háskólastofnana og stoðkerfi í formi styrkja. Jafnframt væri hjálplegt að kortleggja háskólaumhverfið á Íslandi og gera grein fyrir sérstöðu og styrk hverrar stofnunar fyrir sig.

b. Háskólar og aðrar menntastofnanir landsins gætu með öflugu samstarfi þróað nýjar námsleiðir fyrir innlenda og erlenda nemendur. Námsleiðir er gæfu nemendum einstakt tækifæri til fjölbreyttra upplifana þar sem saman færu vönduð námskeið, staðbundnar rannsóknir og spennandi ferðalög um byggðir og óbyggðir landsins. Þannig gæti nemandi t.d. sótt nám sitt í háskóla á Reykjavíkursvæðinu en dvalið um tíma í Svartárkoti - fræðasetri í Bárðardal, og fræðst þar um sambúð manns og náttúru eða farið til Háskólasetursins á Vestfjörðum til þess að fræðast um sjálfbæra nýtingu náttúrauðlinda sjávar. Slíkt samstarf mundi efla menntastofnanir víðsvegar um landið og skapa framtíðarstörf fyrir íslenskt menntafólk. Með því að stuðla að komu erlendra nemenda til landsins með markvissum hætti yrði sáð fræjum fyrir auðugra menntalífi hér á landi og fjölgun erlendra gesta.

Fjölbreytt menntun skapar fjölbreytt atvinnulíf
Menntastofnunum ber að tryggja vandaða menntun og stuðla að gagnrýni og skapandi hugsun nemenda hvert sem sérsvið þeirra er.
Of mikil áhersla á að þjálfa nemendur í samræmi við þarfir vinnumarkaðar þtir undir einsleitni og kemur í veg fyrir sveigjanleika og hæfni til að þróa nýjar atvinnuskapandi leiðir.
Vandasamt er að segja til um hvar vaxtarbroddar nýsköpunar liggja í framtíðinni. Því ber að leitast við að hlúa jafnt að ólíkum sviðum innan lista, vísinda, fræða, tækni- og verkmenntunar til að stuðla að víðtækum tengslum menntastofnana við atvinnulíf og samfélagslega uppbygginu. Blómlegt atvinnulíf sprettur ekki upp úr næringarsnauðum jarðvegi.
Góð menntun og gróska í listum, menningu, vísindum og fræðum er grundvallarskilyrði þess að hér á landi starfi framúrskarandi einstaklingar á öllum sviðum.

Stofna þarf þverfagleg gagnasöfn
Vegna smæðar samfélagsins er Ísland einstakt hvað varðar möguleika á að safna saman víðtækum upplýsingum og tengja saman mismunandi gagnagrunna. Grunngögn um íslenskt samfélag hafa verið dreifð og aðgengi að þeim erfitt. Stafræn samtengd gagnasöfn myndu auðga og auðvelda alla rannsóknarstarfsemi og skapa einstök tækifæri innan ólíkra sviða fyrir innlenda sem erlenda rannsóknaraðila. Fjölþætt og aðgengileg gagnasöfn gætu einnig stuðlað að gagnsæi innviða íslensks samfélags, upplýstari stefnumótun og ákvarðanatöku stjórnvalda, aðhaldi í viðskiptalífi og vísindaiðkun og ábyrgari nálgun við náttúru landsins. Tryggja þarf að ítrustu kröfum um persónuvernd og upprunaskráningu verði framfylgt við gerð gagnasafnanna.

Í hnotskurn:
Virkja þarf á markvissari hátt þá krafta og þekkingu sem íslenskar menntastofnanir búa yfir. Huga þarf að grunninnviðum menntastofnana með því að efla alþjóðlegar rannsóknir og endurskoða núverandi mats- og styrkjakerfi. Auka þarf samstarf á milli menntastofnana landsins og skapa fjölbreyttari vettvang til rannsókna og náms fyrir innlenda sem erlenda aðila. Tryggja þarf sjálfstæði íslenskra menntastofnana gagnvart ráðandi markaðsöflum og hlúa að víðtækum tengslum þeirra við atvinnulíf og samfélagslega uppbyggingu. Lagt er til að stofnuð verði stafræn gagnasöfn á sviði hugvísinda-, félagsvísinda- raunvísinda- og umhverfisrannsókna.

Páll Ásgeir Davíðsson, forstöðumaður Eþikos-Miðstöðvar Íslands um samfélagsábyrgð fyrirtækja, hafði umsjón með samræðu á vinnuborði um menntun.

Björk Guðmundsdóttir boðaði til vinnufunda 12. og 19. október sl. í samvinnu við HR, Klak og nattura.info. Um hundrað sérfræðingar á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar réðu ráðum sínum og gerðu drög að átta tillögum um úrbætur í jafnmörgum málaflokkum.

Birt:
17. nóvember 2008
Höfundur:
Neisti
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Neisti „4. Neisti - Góð menntun og gróska í listum“, Náttúran.is: 17. nóvember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/11/23/4-neisti-goo-menntun-og-groska-i-listum/ [Skoðað:4. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 23. nóvember 2008

Skilaboð: