Ferðamannamóttökur OR hljóta umhverfisvottun Green Globe
Gestamóttökur virkjana Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði og Nesjavöllum hafa hlotið fyrsta stig Green Globe vottunar, Green Globe Benchmarked Bronze Status. Green Globe eru alþjóðleg samtök sem veita vottun fyrirtækjum í ferðaþjónustu og sveitarfélögum, sem vilja vinna að sjálfbærri þróun, stofnuð 1994 í framhaldi af heimsráðstefnunni um umhverfismál í Rio de Janeiro 1992.
Fjöldi gesta í Hellisheiðarvirkjun hefur vaxið ár frá ári og árið 2009 voru skráðir gestir 103.232 talsins. Árið áður voru gestirnir 33.500 og hefur gestafjöldinn því þrefaldast á milli ára. Mestur var gestagangurinn á nýliðnu ári 18. dag ágústmánaðar. Þá var um tíma 21 rúta með erlenda ferðamenn fyrir utan stöðvarhús virkjunarinnar og nam gestafjöldinn þann daginn 970 manns.
Gestamóttakan er opin alla daga frá kl. 9:00 til 18:00 og starfsfólk hennar er boðið og búið að fræða ferðafólk um grundvallaratriði jarðhitanýtingar og ekki síður að kynna fólki og leiðbeina því um gönguleiðir á Hengilssvæðinu. Stikaðar gönguleiðir losa 100 kílómetra að lengd.
Vottunin er þróuð í samvinnu við Alþjóða ferðamálaráðið og byggist á því að fyrirtæki í þeirri atvinnugrein, eða öðrum henni tengdum, sýni fram á stöðugar umbætur eða úrbætur í umhverfismálum. Fyrirtækjunum er gert að taka tillit til umhverfisins og samfélagsins í daglegum rekstri og að bæta fyrir umhverfislega og félagslega röskun sem getur hlotist af rekstrinum.
Nokkur atriði, svokallaðir umhverfisvísar, eru lögð til grundvallar við vottunina. Starfsemi gestamóttökunnar í Hellisheiðarvirkjun féll öll innan marka Green Globe hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda, orkunýtingu og -stýringu, bætta nýtingu á ferskvatni, vernd vistkerfis og stjórn landnotkunar, loftgæði og stjórn hávaðamengunar, að draga úr úrgangi, geymslu á hættulegum efnum og loks hvað varðar aðkomu að samfélags- og menningarmálum á starfssvæði sínu. Undir síðasta umhverfisvísinn fellur áhersla á að ráða fólk af athafnasvæði fyrirtækisins og kaupa þjónustu þaðan.
Ljósmynd: Frá opnun Hellisheiðarvirkjunar, Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Eiríkur Hjálmarsson „Ferðamannamóttökur OR hljóta umhverfisvottun Green Globe“, Náttúran.is: 14. janúar 2010 URL: http://nature.is/d/2010/01/14/ferdamannamottokur-or-hljota-umhverfisvottun-green/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 20. janúar 2010