Ávarp umhverfisráðherra við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs
Ágætu hátíðargestir.
Það er mér mikill heiður sem umhverfisráðherra að vera viðstödd þennan merka viðburð í sögu okkar Íslendinga. Í dag stofnum við Vatnajökulsþjóðgarð, stærsta þjóðgarð í Evrópu og þjóðgarð sem er einstakur á heimsvísu. Með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs eru Íslendingar að ráðast í stærsta náttúruverndarverkefni frá upphafi. Vatnajökulsþjóðgarður mun við stofnun ná yfir 12% landsins, og er honum ætlað að tryggja Íslendingum og gestum þeirra til framtíðar ógrynni möguleika til náttúruskoðunar, náttúrufræðslu, náttúrurannsókna, og náttúruupplifana af ýmsu tagi. Stofnun þjóðgarðsins er einnig eitt stærsta atvinnusköpunar- og byggðaþróunarverkefni sem stjórnvöld hafa tekist á hendur í þessum hluta landsins. Vatnajökulsþjóðgarður boðar nýja tíma í náttúruvernd á Íslandi, nýjar aðferðir og nýja hugmyndafræði.
Vatnajökulsþjóðgarður mun í fyrstu ná til alls þjóðgarðsins í Skaftafelli svo og þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum auk nánast alls Vatnajökuls og helstu áhrifasvæða hans, að vestan, norðan, austan og sunnan. Meðal þess eru Tungnafellsjökull, Vonarskarð, Hágönguhraun og Veiðivatnahraun, vestan Vatnajökuls og Vesturöræfi, Snæfell, Eyjabakkar og hluti Hrauna, norðan Vatnajökuls. Sunnan Vatnajökuls bætast einnig við ný og mikilvæg fjallendi eins og Heinabergssvæðið í landi Skálafells og Flatey á Mýrum. Land í Vatnajökulsþjóðgarði verður að mestu í eigu ríkisins, en einnig munu nokkur landsvæði í einkaeigu verða hluti af þjóðgarðinum við stofnun. Auk þess mun stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs taka að sér í umboði Umhverfisstofnunar rekstur nokkurra friðlýstra svæða í nágrenni hans, svæða sem í framtíðinni er reiknað með að verði hluti þjóðgarðsins. Þessi svæði eru: Dettifoss, Selfoss og Hafragilsfoss og nágrenni í Öxafjarðarhreppi, Herðubreiðafriðland, Askja í Ódáðahrauni, Hvannalindir, Lónsöræfi og Kringilsárrani.
Uppbygging Vatnajökulsþjóðgarðs er langtímaverkefni. Væntingar standa til þess að þjóðgarðurinn muni stækka talsvert á næstu misserum og árum, og enn standa yfir viðræður við landeigendur og sveitarfélög um önnur landsvæði en þau sem ákveðið er að verði hluti hans við stofnun. Markmiðið er að öll helstu áhrifasvæði Vatnajökuls með m.t.t. landmótunar á hálendinu verði í framtíðinni hluti þjóðgarðsins, þó ekki liggi fyrir neinar áveðnar tímasetningar.
Varðandi frekari stækkun þjóðgarðsins geri ég þó ráð fyrir því nú að nokkur ný svæði geti bæst við fljótlega. Eftir viðræður ráðuneytisins við Skaftárhrepp að undanförnu er ég nú afar bjartsýn um að hin sérstaka náttúra svæðisins við Langasjó og Eldgjá verði orðinn hluti þjóðgarðsins að ári loknu. Nokkur fjallendi við sunnanverðar rætur jökulsins bætast einnig að líkindum við innan skamms. Nú þegar við stofnun þjóðgarðsins verða þeir hlutar Jökulsár á Fjöllum sem eru í eigu ríkisins hluti af þjóðgarðinum. Er það mikilvægur áfangi að friðun árinnar í heild sinni, en hún er eins og allir vita einn af stóru áhrifavöldum jökulsins á landmótun á svæðinu norðan Vatnajökuls.
Það er ljóst af öllum undirbúningi og þeim pólitísku umræðum og samræðum sem fram fóru í aðdragandanum á alþingi, í undirbúningshópum og í þjóðfélagsumræðunni almennt að Vatnajökulsþjóðgarði er ætlað tvíþætt markmið. Hið yfirlýsta meginmarkmið sem fram kemur í lögum um þjóðgarðinn er vitaskuld friðun einstakrar náttúru og landslagsheilda . Hitt markmiðið með stofnun þjóðgarðsins er atvinnusköpun og styrking byggðar – verkefninu er ætlað að sýna og sanna að stofnun þjóðgarðs geti haft jákvæð áhrif á atvinnu- og byggðaþróun á grenndarsvæðum þjóðgarðsins. Hugmyndafræðin er þannig talsvert ólík þeirri sem tíðkast hefur við stofnun og rekstur þjóðgarða á Íslandi til þessa.
Landssvæði garðsins er einstakt frá náttúrverndarsjónarmiði, hvort sem litið er til Íslands eða á heimsvísu. Vatnajökull og nærsvæði hans mynda náttúrufarslega heild sem á sér fáar ef nokkrar hliðstæður í veröldinni. Sérkennin eru slík að vernd þeirra sem heildar gæti uppfyllt strangar kröfur heimsminjaskrár SÞ. Hér er um að ræða síkvikt samspil jökla og eldvirkni, jökulhlaupa, eldgosa og jarðhita. Jarðfræðileg fjölbreytni er gríðarleg og innan væntanlegra þjóðarðsmarka er að finna afar sjaldgæf víðerni.
Fyrir stofnun þjóðgarðs liggja einnig nauðsynleg og praktísk rök. Aukinn ágangur ferðamanna á undanförnum árum kallar á sterkari inniviði, aukna þjónustu og meiri fræðslu. Þörfin er nú þegar gríðarleg eins og allir vita sem ferðast hafa um þessi svæði.
Þjóðgarðinum er einnig ætlað stórt hlutverk í að styrkja byggð og skapa atvinnu á grenndasvæðum. Ég er þeirrar skoðunar að vernd sé ein tegund nýtingar, en ekki andstæða hennar. Það er staðföst trú mín og okkar allra sem vinnum að stofnun garðsins að sérstæð náttúra sé gríðarlega verðmæt auðlind sem geti skapað mun meiri varanleg verðmæti og fleiri störf en önnur nýting ef rétt er á haldið. Við teljum að vernd og nýting geti farið saman og eigi að fara saman, og á þeim grunni verður unnið að uppbyggingu og rekstri þjóðgarðsins.
Hugmyndafræði Vatnajökulsþjóðgarðs felur í sér ýmis ný mæli. Verndarviðmið þjóðgarðsins munu lúta reglum IUCN, alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna, og verður verndaráætlun hans unnin í samræmi við þær. Það þýðir að svæði geta fallið í sex afar mismunandi verndarflokka allt frá alfriðun í svæði þar sem áhersla er lögð á útivist og ferðamennsku til svæða þar sem hefðbundnar nytjar (beit og veiðar) verða leyfðar. Sum landssvæðin innan garðsins eru í einkaeign, þó mikill meirihluti sé í eigu ríkisins. Þjóðgarðurinn skiptist í fjögur rekstrarsvæði sem lúta svæðisstjórnum, en þau eru yfirstjórn til ráðgjafar um þau málefni sem lúta að viðkomandi svæðum, allt frá ráðningu þjóðgarðsvarða til gerðar verndaráætlunar. Afar mikil áhersla er lögð á aðkomu heimamanna að stjórn og rekstri þjóðgarðsins. Vatnajökulsþjóðgarður verður byggður og rekinn fyrir opinbert fé og nú þegar er hafin uppbygging á metnaðarfullu þjónustuneti eins og stjórnarformaður þjóðgarðsins nefndi áðan. Heildarstofnkostnaður er áætlaður um 1.150 mkr, og árlegur rekstrarkostnaður við lok uppbyggingar um 325 mkr.
Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs hefur þegar vakið athygli og væntingar, innan lands sem utan. Þjóðgarðurinn er stórvirki í náttúruverndarbaráttu þjóðar sem um langt árabil hefur tekist á um nýtingu og vernd landssvæða og auðlinda. Til hans standa einnig miklar væntingar sem verkefnis sem muni treysta atvinnu og byggð, bæði í þeim sveitarfélögum sem að honum liggja og hjá þjóðinni allri. Áætlanir gera ráð fyrir að fjöldi ferðamanna muni aukast umtalsvert vegna þjóðgarðsins og þjóðartekjur að sama skapi. Uppi eru ýmsar spennandi hugmyndir atvinnustarfsemi, rannsóknir, listsköpun og fræðslu sem byggja munu á ný stárlegri upplifun og miðlun á einstakri náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs.
Miklar og ólíkar væntingar bera með sér talsverða ábyrgð. Ég tel að galdurinn að farsælli framtíð Vatnajökulsþjóðgarðs felist í því að leita jafnvægis. Verkefnið er að tryggja sanna og metnaðarfulla náttúruvernd sem á samleið með og leggur verðmætan grunn að atvinnuuppbyggingu og jákvæðri byggðaþróun hér í ríki Vatnajökuls. Það verkefni eigum við Íslendingar að geta leyst með sóma. Og ef við ný tum hugaraflið sem í okkur býr finnum getum við fundið ný stárlegar leiðir að markmiðum okkar. Til þess þurfum við að vinna saman, stefna í sömu átt, og leggja allan okkar metnað og góðu hugmyndir í sama sjóð. Við þurfum að stuðla að samvinnu ólíkra aðila: allra þeirra hæfileikaríku einstaklinga sem búa á svæðinu, fræðimanna og listamanna, vísindamanna og stjórnmálamanna, athafnamanna og markaðsmanna, og allra annarra aðila, innlendra sem erlendra sem vilja taka þátt í því að gera þennan þjóðgarð að einstöku verkefni.
Og þá er komið að formlegri stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Nú mun ég undirrita því til staðfestingar reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð.
Efri myndin er frá Skaftafelli. Ljósmynd: Árni Tryggvason. Neðri myndin er af Þórunni Sveinbjarnardóttur í pontu við stofnun þjóðgarðsins.
Birt:
Tilvitnun:
Þórunn Sveinbjarnardóttir „Ávarp umhverfisráðherra við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs“, Náttúran.is: 7. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/07/avarp-umhverfisraoherra-vio-stofnun-vatnajokulsthj/ [Skoðað:2. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.