Norrænu ríkin skiptast á um að fara með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og leiða starfsemina eitt ár í senn. Nú á árinu 2009 kemur það í hlut Íslendinga að gegna formennsku í nefndinni.

Yfirskrift formennskuáætlunar Íslands er „Norrænn áttaviti“. Í fjórum undirköflum er gerð grein fyrir helstu áherslumálum, en rauður þráður er að stórefla skuli rannsóknir og nýsköpun, ekki síst á sviði orku- og umhverfismála. Einnig er verndun hafsins eitt af áherslumálunum svo og gerð vákorts fyrir Norður-Atlantshafið.

Stefnumiðin eru undir fjórum meginý emum:

Sjá pdf-útgáfu af formennskuáætluninni í heild sinni.

Norræna ráðherranefndin er samsett úr 10 ráðherranefndum fagráðherra. Hún ber ábyrgð á norrænum rannsóknarverkefnum, stofnunum, starfsemi norrænu upplýsingaskrifstofanna, alþjóðlegum samningum og sáttmálum.

Sjá bækling um Norrænu ráðherranefndina

Íslendingar gegndu síðast formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2004 undir yfirskriftinni „Auðlindir Norðurlanda“.

Hér að neðan má lesa kaflann um sjálfbæra framleiðslu og neyslu úr bæklingi umhverfisráðuneytisins um Norræna áttavitann:

Auðlindir jarðar eru takmarkaðar. Framleiðsla og neysla geta valdið mengun og skaðað náttúruna. Mikilvægt er að haga neyslu og framleiðslu í samræmi við sjónarmið sjálfbærrar þróunar og að hver og einn skynji ábyrgð sína. Einnig er mikilvægt að opinberir aðilar hafi forystu um skipulagt umhverfisstarf og vistvæn innkaup í stofnunum sínum. Umhverfisstjórnunarkerfi auðvelda stjórnvöldum og atvinnulífi að vinna að umhverfismálum. Áhugi og aukið framboð á umhverfismerktum vörum auðveldar neytendum, hvort sem um er að ræða einstaklinga, fyrirtæki eða opinbera aðila, að leggja sitt af mörkum til að draga úr álagi á auðlindir jarðar. Íslendingar leggja áherslu á að Norðurlönd hafi áhrif á framkvæmd stefnu ESB um sjálfbæra neyslu og framleiðslu. Í norrænu samstarfi hefur verið lögð áhersla á að lítil fyrirtæki hafi verkfæri til að vinna að umhverfismálum. Norræn verkefni um bestu fáanlegu tækni í einstökum atvinnugreinum hafa nýst mjög vel og stuðlað að góðum árangri og haft mikil áhrif á stefnumótun ESB á þessu sviði. Jafnframt hefur norræn samvinna um þróun hjálpartækja fyrir fyrirtæki til að þau geti lagað starfsemi sína að sjálfbærri þróun og fundið umhverfisvænni lausnir skilað umtalsverðum árangri. Á formennskuárinu leggja Íslendingar áherslu á að styrkja þetta starf enn frekar og stuðla að því að áfram verði unnið að því að þróa einfalt umhverfisstjórnunarkerfi sem hentar litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Norðurlöndum og skoða möguleika á vottun fyrir umhverfisstjórnunarkerfi.
Veruleg umhverfisáhrif geta hlotist af framleiðslu og notkun efna og efnavara. Norðurlönd hafa verið leiðandi í greiningu á þeirri áhættu sem fylgir notkun ýmissa efna fyrir heilsu og umhverfi. Sú vinna hefur nýst mjög vel ekki einungis á Norðurlöndum heldur einnig í ESB, OECD og víðar. Íslendingar leggja áherslu á að það starfi haldi áfram með það fyrir augum að koma í veg fyrir skaða á heilsu og umhverfi vegna framleiðslu og notkunar á efnum og efnavörum.

Verkefni
Norræna umhverfismerkið Svanurinn er dæmi um áhrifaríkt norrænt samstarf. Svanurinn hefur að nokkru leyti orðið fyrirmynd fyrir Evrópska umhverfismerkið Blómið og þær viðmiðanir sem settar hafa verið fyrir það. Íslendingar munu á formennskuárinu beita sér fyrir því að styrkja Svaninn enn frekar og farið verður yfir þær niðurstöður og tillögur sem fram komu við endurskoðun á Svaninum á síðasta ári. Íslendingar munu hrinda af stað verkefni þar sem safnað verður dæmum um góðan árangur af markaðssetningu Svansins og nýta upplýsingarnar til að stuðla að enn frekari útbreiðslu hans.

Birt:
2. janúar 2009
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Norræni áttavitinn - Íslendingar í formennskuhlutverkinu 2009“, Náttúran.is: 2. janúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/01/02/norraeni-attavitinn-islendingar-i-formennskuhlutve/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: