Viðbrögð vegna aukins styrks brennisteinsvetnis á höfuðborgarsvæðinu
Vegna fréttar Ríkisútvarpsins um að heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hafi vakið athygli umhverfisráðuneytisins á því að hún telji að mengun frá Hellisheiðavirkjun sé farin að valda óþægindum á höfuðborgarsvæðinu vill umhverfisráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri.
Umhverfisráðuneytið lítur málið alvarlegum augum og hefur haft það til sérstakrar skoðunar undanfarna mánuði. Í kjölfar frétta í vetur af auknum styrk brennisteinsvetnis á höfuðborgarsvæðinu hefur Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra lagt áherslu á að gerð reglugerðar um brennisteinsvetni verði hraðað eins og kostur er. Unnið er að reglugerðinni á vegum Umhverfisstofnunar og stefnt er að því að ljúka gerð hennar á næstunni. Gert er ráð fyrir að í henni verði kveðið á um hámarks losunarmörk frá jarðvarmavirkjunum.
Þá hefur ráðherra lagt til að mælistöðvum sem mæla brennisteinsmengun á höfuðborgarsvæðinu verði fjölgað. Þar að auki hefur ráðherra falið Umhverfisstofnun að finna leiðir til að draga úr styrk brennisteinsvetnis á höfuðborgarsvæðinu svo hratt sem nokkur kostur er. Í því augnamiði hefur Umhverfisstofnun efnt til reglulegra samráðsfunda með Orkuveitu Reykjavíkur, Vinnueftirliti ríkisins og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands. Í tengslum við það samráð hefur Orkuveita Reykjavíkur unnið viðbragðsáætlun um aðgerðir ef styrkur brennisteinsvetnis fer yfir ákveðin mörk.
Til viðbótar við mælingar Umhverfisstofnunar í Norðlingaholti í Reykjavík og í Hveragerði hefur Heilbrigðiseftirlit Suðurlands gert kröfu á Orkuveitu Reykjavíkur um uppsetningu á föstum mælistöðvum í Hveragerði, við Hellisheiðavirkjun og austarlega í Reykjavík. Farið var fram á að stöðvarnar yrðu teknar í notkun eigi síðar en 1. apríl síðastliðinn en síðan hefur sá frestur verið framlengdur og stefnt er að því að mælistöðvarnar verði teknar í notkun í sumar.
Rétt er að geta þess að Umhverfisstofnun hefur ekki formlega aðkomu að málefnum Hellisheiðarvirkjunar þar sem Heilbrigðisnefnd Suðurlands veitir starfsleyfið og hefur eftirlit með starfseminni eins og kveðið er á um í lögum. Ráðuneytið hefur nú til skoðunar hvort rétt sé að huga að lagabreytingum í þessu sambandi.
Mynd: Gufustrókar frá Hellisheiðarvirkjun. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Viðbrögð vegna aukins styrks brennisteinsvetnis á höfuðborgarsvæðinu“, Náttúran.is: 30. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/30/viobrogo-vegna-aukins-styrks-brennisteinsvetnis-ho/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.