Á fundi leiðtoga G-8 ríkjanna - Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Ítalía, Kanada, Japan, Rússland og Þýskaland - í japönsku borginni Toyako á eyjunni Hokkadio gengu leiðtogar ríkjanna skrefinu lengra en á síðasta ári þegar þeir samþykktu almennt markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um helming fyrir 2050 til að stöðva loftslagsbreytingar.

Á fundi G-8 ríkjanna fyrir ári síðan var samþykkt að "íhuga alvarlega" slíkan samdrátt. Í bæði skiptin var Bush Bandaríkjaforseti þröskuldur fyrir framförum.

Sérfræðingur BBC í umhverfismálum, Richard Black, bendir á að með því að fallast á að langtímamarkmið séu æskileg hafi Bandaríkin þokast áfram. En hann bendir einnig á að samkomulagið sé hvergi nærri nógu metnaðarfullt sé miðað við hvað margir loftslagsvísindamenn og umhverfisverndarsamtök hafa farið fram á, einkum hvað varðar skammtímamarkmið. Við blasir að Norðurheimskautið verði íslaust að sumri til innan 10 ára.

Við þekkjum þetta vandamál hér heima þar sem markmið ríkisstjórnar Íslands er að draga úr nettólosun um 50 - 75% fyrir 2050 en enn bólar ekkert á aðgerðaáætlun fyrir næstu 10 ár eða svo.

Yfirlýsing leiðtoga G-8-ríkjanna felur í sér að aðildarríkin muni einungis stefna að 50% samdrætti í losun nema helstu þróunarríki fallist á að grípa til aðgerða en að mati Richards Blacks er alls ekki víst að þau fallist á slík markmið.

Hafa ber í huga að samkvæmt Kyoto-bókuninni frá 1997 voru þróunarríkin undanskilin skuldbindingum um samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Í löndum á borð við Kína og Indland hefur losun aukist gríðarlega undan farin ár en þó bþst engin við að samþykkt verði að þessi ríki taki á sig skuldbindingar um samdrátt í þeim samningi sem stefnt er að í Kaupmannahöfn árið 2009. Heldur er stefnt að því að þróunarríki taki á sig skuldbindingar um að auka ekki losun í takti við hagvöxt.

Skþringin á þessu er sú að losun á hvert mannsbarn í Indlandi er um 1 tonn á ári. Í Kína er losunin 3,5 tonn á ári en í iðnríkjunum er hún miklu hærri. Á Íslandi er hún 17 tonn, í Bandaríkjunum 23 og Ástralíu 26 tonn. Meðaltal Evrópu er um 10 tonn á ári. Meðaltalslosun er ekki síður mikilvægt viðmið og heildarlosun og þróunarríkin benda á að iðnríkin beri mesta ábyrgð (sögulega séð) á þeim vanda sem við er að etja.

Umhverfisráðherra Suður-Afríku sagði um samkomulagið í Japan, að "While the statement may appear as a movement forward, we are concerned that it may, in effect, be a regression from what is required to... meeting the challenges of climate change." Hann sagði að samþykkt 8-ríkjanna fæli í sér framtíðarsýn en engin skýr markmið um hvernig skuli ná markmiðum um samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

Sjá frétt BBC
Birt:
8. júlí 2008
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Leiðtogar G-8 ríkjanna stefna að helmingun í losun gróðurhúsalofttegunda “, Náttúran.is: 8. júlí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/07/08/leiotogar-g-8-rikjanna-stefna-ao-helmingun-i-losun/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: