Getur vistvæn áburðarframleiðsla orðið að stóriðju á Íslandi?
Ef Íslendingar framleiddu vetni fyrir áburðarframleiðslu með rafgreiningu í stað þess að flytja inn áburð sem framleiddur er úr jarðefnaeldsneyti, myndi það svara til ársnotkunar vetnis fyrir um 20 þúsund vetnisbíla, sem væri ekið 15 þúsund kílómetra á ári. Á þetta bendir Sigþór Pétursson, prófessor í efnafræði við Viðskipta- og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri, en hann hefur undanfarin misseri gagnrýnt hugmyndir manna um vetnisvæðinguna svonefndu eins og hún er fram sett. Vetni er tæknileg útfærsla á orkunýtingu og engin lausn á orkuvanda heimsins og því ættu Íslendingar að snúa sér að raunhæfari verkefnum. Ein þeirra hugmynda sem Sigþór hefur viðrað er að gera áburðarframleiðslu að stóriðju hér á landi.
Sigþór hefur varpað fram þeirri spurningu hvort við getum framleitt eitthvað sem skiptir máli með vistvænni íslenskri orku, sem nú er framleitt með jarðefnaeldsneyti. Hann segir svarið við því einfalt og jákvætt. Ekki þýði að framleiða vetni fyrir vetnisbíla sem ekki eru til, en hins vegar geti vetnisframleiðslan nýst til framleiðslu á ammóníaki sem síðan væri notað í köfnunarefnisáburð. Bendir Sigþór á að nú séu framleidd um 50 milljón tonn af vetni árlega en þau myndu nægja til að knýja 150 til 200 milljónir vetnisbíla. Jarðgas er bróðurpartur þess sem notað er til framleiðslu vetnisins, eða 48%. 30% koma frá olíu, 18% frá kolum og 4% vegna rafgreiningar vatns. Heimsframleiðsla á ammoníaki var árið 2004 um 109 milljónir tonna, en 85% af öllu framleiddu ammoníaki fer til áburðarframleiðslu. Langstærsti hluti framleiðsluverðs ammoníaks liggur í verði á jarðgasi, sem nýtt er til framleiðslunnar.em er sú vistvæna orkuframleiðsla sem vex hraðast í heiminum um þessar mundir.
Bendir Sigþór á að ársnotkun köfnunarefnisáburðar á Íslandi jafngildi 12.300 tonnum af köfnunarefni, sem samsvari tæplega 15 þúsund tonnum af ammoníaki og ríflega 2600 tonnum af vetni. Nefnir hann að Honda FCX vetnisbíll með efnarafal, sem ekið sé 150 þúsund kílómetra á ári, noti um 133 kíló af vetni árlega. „Ef við framleiddum vetnið fyrir áburðarframleiðslu með rafgreiningu í stað þess að flytja inn áburð sem framleiddur er með jarðefnum myndum við spara sem svarar til eyðslu um 20 þúsund vetnisbíla. Það er athyglisvert að fara inn á heimasíðu Orkustofnunar (www.orkustofnun.is) og slá inn leitarorðið ‚áburður‘. Engin svörun kemur við því. Ef hins vegar er slegið inn ‚vetni‘ koma margar skýrslur sem allar snúast um vetnisknúin farartæki. Um helmingur þess vetnis sem framleitt er í heiminum fer í framleiðslu á köfnunarefnisáburði. Næstum allt þetta vetni er framleitt úr jarðefnaeldsneyti,“ segir Sigþór.
Áburður á tún á Íslandi framleiddur úr jarðgasi
Verksmiðja sem framleiddi áburð hér á landi yrði að bera sig en Sigþór segir það augljóst að á meðan verð á jarðefnaeldsneyti rjúki upp muni áburður einnig hækka í verði. „Ég tel að iðnaðarráðuneytið ætti að hafa forgöngu um að gera útttekt á hagkvæmni þess að hefja framleiðslu á áburði hér á landi, þetta er iðnaður sem getur orðið okkur gífurlega mikilvægur. Það er líka einkennilegt að hugsa til þess að sá áburður sem borinn er á tún á Íslandi skuli framleiddur úr jarðgasi. Ef við meinum eitthvað með því sem við segjum um umhverfisvernd ættu menn að huga að þessum kosti. Það er markaður fyrir hendi, um yrði að ræða vistvæna framleiðslu, sem ætti að virka sterkt á markaðinn og þarna fáum við kjörið tækifæri til að nýta orku okkar,“ segir hann. Bendir Sigþór á að árið 2005 voru um 19 milljónir tonna af vetni nýtt til að framleiða áburð í heiminum. Þau samsvara 110 milljónum tonna af ammoníaki, en tonn af því kostaði árið 2005 um 520 dollara. „Það er að sjálfsöðu óraunhæft að ætla Íslendingum að yfirtaka ammoníakmarkað heimsins en söluverðmæti 110 milljóna tonna af ammoníaki yrði um 57 milljarðar bandaríkjadala, eða um 4.030 milljarðar íslenskra króna, svo markaðurinn er stór,“ segir hann.
Hann telur ekki útilokað að unnt verði að hefja framleiðslu á ammoníaki eða köfnunarefnisáburði og gera að stóriðju á Íslandi, að Íslendingar geti orðið vistvænir áburðarframleiðendur og markaðssett áburðinn á heimsvísu. Með því segir hann að skapist markaður fyrir alla þá orku sem djúpboranirnar eigi að skila, en eins þykir Sigþóri fþsilegt að horfa í náinni framtíð til vindorkunnar, sem er sú vistvæna orkuframleiðsla sem vex hraðast í heiminum um þessar mundir.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
MÞÞ „Getur vistvæn áburðarframleiðsla orðið að stóriðju á Íslandi?“, Náttúran.is: 13. júlí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/07/13/getur-vistvaen-aburoarframleiosla-oroio-ao-storioj/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.