Sveitarstjórinn segir að neikvæð afstaða Hvergerðinga til Bitruvirkjunar hafi ekki úrslitaáhrif um hvort að af virkjunum í Henglinum verði eður ei og rafmagnið hafi þegar verið eyrnamerkt álveri í Helguvík og því verði að virkja. Ólafur Áki heldur áfram með stórar yfirlýsingar og staðhæfir að áframhaldandi líf í landinu velti á því hvort að virkjað verði og álverum fjölgi eða ekki.
Eins og kunnugt er hefur Skipulags- og byggingarnefnd Hveragerðisbæjar alfarið lagst gegn framkvæmdinni og telur hana hafa afar skaðleg áhrif á möguleika bæjarins sem íbúðar- og ferðamannasvæðis. Hátt á sjöhundruð athugasemdir um umhverfismat Bitru- og Hverahlíðarvirkjunar höfðu borist Skipulagsstofnun seinnipartinn í dag. Svæðið er á náttúruminjaskrá!
Ólafur Áki klingir út með því að benda á að það skipti svo sem heldur ekki nokkuru máli hvað Skipulagsstofnun álykti og nefnir sem dæmi hvernig sveitarstjórn Ölfuss gaf leyfi til áframhaldandi og stóraukinnar efnistöku úr Ingólfsfjalli í hitteðfyrra, í fullkomnu trássi við álit Skipulagsstofnunar.