Útgáfufélag Fréttablaðsins, 365, hefur látið hanna og framleiða sérstaka endurvinnslutösku fyrir dagblöð. Taskan er kölluð Blaðberinn. Hún er ætluð fyrir heimili landsins og er ókeypis í anda Fréttablaðins.

Jón Kaldal, ritstjóri Fréttablaðins, segir að hugmyndin að baki framtakinu sé að efla vitund um umhverfisvernd og nýtingu verðmæta. "Það er nánast skylda okkar, sem stöndum að útgáfu Fréttablaðsins, að vera í fararbroddi þeirra sem hvetja til þess að dagblöð rati í endurvinnslu í stað þess að vera hent með almennu heimilissorpi. Allt of mikið af pappír er urðað eins og staðan er núna. Þetta er neikvætt á að minnsta kosti tvo vegu. Í fyrsta lagi ber þetta ekki vott um góða umgengni við umhverfið, og í öðru lagi fara mikil verðmæti til spillis þegar pappír er grafinn í jörðu," segir Jón.

Fimm dagblöð eru gefin út hér á landi, þar ef tvö sem eru borin út á stóran hluta heimila. "Það er mikið magn af dagblaðapappír sem kemur inn um lúguna hjá manni í hverri viku auk alls kyns auglýsingapésa. Á vissan hátt erum við að taka þennan slag fyrir alla útgefendurna, því Blaðberinn er að sjálfsögðu ekki aðeins ætlaður til að hjálpa við endurvinnslu á Fréttablaðinu, heldur líka Morgunblaðinu, DV, 24 stundum og Viðskiptablaðinu."

Að sögn Jóns hafa verið framleiddir þrjátíu þúsund Blaðberar og ef þeir klárast hratt verða umsvifalaust fleiri pantaðir.

Myndin er af Tinnu Gunnarsdóttur, hönnuði Blaðberans með einn slíkan á öxlinni. Ljósmynd: Fréttablaðið, Arnór.

Birt:
18. apríl 2008
Höfundur:
þo
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
þo „Blaðberinn - Fréttablaðið hvetur til endurvinnslu“, Náttúran.is: 18. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/18/blaoberinn-frettablaoio-hvetur-til-endurvinnslu/ [Skoðað:4. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: