Vistvæn tíska var sýnd á tískupöllum í Kaupmannahöfn hinn 9. desember á sama tíma og fulltrúar ríkja heimsins funduðu um loftslagsbreytingar.

Sjálfbær eða svokölluð vistvæn tíska er hluti af ört vaxandi hönnunarheimspeki og tískustefnu. Markmiðið með henni er að innleiða sjálfbærar aðferðir við fatahönnun og -gerð. Slíkar aðferðir krefjast endurskoðunar á öllu ferlinu, allt frá hráefni og vinnslu á því til markaðssetningar. Taka þarf tillit til margra þátta á borð við sanngjarna viðskiptahætti, dýravernd og þróun textíls.

Samkvæmt samtökunum Earth Pledge, eru í það minnsta átta þúsund efni notuð til að breyta hráefni yfir í textíl og um 25 prósent af skordýraeitri í heiminum er notað til að rækta ólífræna bómull. Þetta veldur að sjálfsögðu skaða, bæði á fólki og umhverfinu.

Á sama tíma og loftslagsráðstefnan stendur yfir í Kaupmannahöfn, stóð danska tískustofnunin fyrir sérstakri vistvænni tískusýningu. Tilefnið var að minna á þá mengun sem hlýst af tískuiðnaðinum og hvað sé hægt að gera til að koma í veg fyrir hana. Um 20 norrænir hönnuðir tóku þátt í sýningunni en meðal annarra í áhorfendahópnum var Mary krónprinsessa Danmerkur.

Sjá nánar á vef COP15.dk.

Birt:
18. desember 2009
Höfundur:
Fréttablaðið
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Fréttablaðið „Sjálfbær tískusýning“, Náttúran.is: 18. desember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/12/18/sjalfbaer-tiskusyning/ [Skoðað:4. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: