Umhverfisráðuneytið, Landvernd og Náttúruskóli Reykjavíkur buðu nemendum í Hjólaríi Snælandsskóla í hjólreiðaferð í liðinni viku. Nemendurnir voru útnefndir Varðliðar umhverfisins á Degi umhverfisins í ár og var ferðin viðurkenning fyrir þann árangur.

Hjólreiðaferðin hófst á ferð í klúbbhús Hjólafélags Reykjavíkur í Nauthólsvík þar sem Pétur Þór Ragnarsson tók á móti hópnum. Pétur sýndi Varðliðunum m.a. nýtt keppnishjól sem er svo létt að hægt er að lyfta því með einum fingri. Eftir stuttan leik í Nauthólsvík var hjólað áfram um Skerjafjörðinn og að Norræna húsinu. Þar tók starfsfólk hússins á móti hópnum og sagði frá húsinu, höfundi þess og næsta nágrenni. Frá Norræna húsinu var hjólað áfram um Vatnsmýrina og svo í Keiluhöllina í Öskjuhlíð þar sem krakkarnir spiluðu keilu og snæddu hádegisverð. Sesselja Traustadóttir, verkefnastýra Hjólafærni á Íslandi, var leiðangursstjóri ferðarinnar.

Hjólaríið var sett á laggirnar í reiðhjólaverkstæði í Snælandsskóla haustið 2006. Nemendurnir læra þar viðgerðir á reiðhjólum, þar eru ónýt hjól nýtt sem varahlutir í önnur og afrakstur þess er fjöldi fullbúinna hjóla sem skólinn hefur fært m.a. Rauða krossinum að gjöf. Markmið verkefnisins er m.a. að endurnýta það sem mögulegt er og að nemendur læri að meta reiðhjól sem farartæki. Hjólaríið var stofnað af Unni Sólrúnu Bragadóttur kennara.

Heimasíða Hjólarís.

Mynd. Við Snælandsskóla, nemendur í Hjólaríi Snælandsskóla undirbúa hjólreiðaferð um Reykjavík, ljósmynd: Umhverfisráðuneytið.

Birt:
27. október 2009
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Varðliðar umhverfisins í hjólreiðaferð“, Náttúran.is: 27. október 2009 URL: http://nature.is/d/2009/10/27/varolioa-umhverfisins-i-hjolreioafero/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: