Við opnun loftslagsþings Sameinuðu þjóðanna í Poznan, Póllandi, á mánudag, sagði formaður Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóanna um loftslagsbreytingar, nóbelsverðlaunahafinn, Rajendra Pachauri nauðsynlegt sé að endurskoða hvort 2°C hitnun andrúmslofts jarðar, að meðaltali væri nægilega lágt viðmið, efri mörk, fyrir hættulegar loftslagsbreytingar.

Á ráðstefnunni hefur komið fram að niðurstöður fjórðu matsskýrslu IPCC sem kom út fyrir ári síðan hafi byggst á vísindarannsóknum sem fyrir lágu fyrir þremur árum. Nýrri rannsóknir bendi hins vegar til að loftslagskerfi Jarðar þoli ekki 2°C hitnun. Nær væri að setja markið við 1,7°C svo tryggt verði að breytingar á lífríki Jarðar verði ekki óafturkræfar.

Í umræðum í gær kom fram gagnrýni smáeyríkja og annarra þróunarríja á stefnu Evrópusambansins - sem Ísland styður - um að iðnríki dragi úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 25 - 40% fyrir 2020, muni ekki duga til að halda hitnun andrúmsloftsins innan við 2°C. Heldur, muni íbúar fjölda fátækra ríkja lenda í miklum hremmingum í fyrirsjáanlegri framtíð. Einn fulltrúi kallaði þessa stefnu "suicidal note".

Fulltrúi Evrópusambandsins varði stefnu þess og benti á að ESB væri eina ríkjasamband iðnríkja sem hafi ákveðna og skýra stefnu um að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Þeir sem gagnrýndu Evrópusambandið ættu frekar að beina spjótum sínum að þeim iðnríkjum sem engin markmið hafi sett um minni mengun andrúmsloftsins. Les: Bandaríkin.

Viðræður hér í Poznan einkennast mjög af vantrausti milli aðila. Þróunarríkin með Indland, Kína, Suður Afríku, Brasilíu og Mexikó í broddi fylkingar treysta því ekki að iðnríkin muni standa við fögur fyrirheit um að taka forustu um samdrátt og fjárhagslegan og tæknilegan stuðning við þróunarríkin áður en hin fátækari ríki heims verði krafin um að taka á sig byrðar og sitji þar að auki í súpunni í kjölfar loftslagsbreytinga.

Spegill RÚV sagði frá umræðum um hvers vegna markið hefur verið sett við 2°C.
Birt:
3. desember 2008
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Loftslagsþingið í Poznan “, Náttúran.is: 3. desember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/12/03/loftslagsthingio-i-poznan/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 4. desember 2008

Skilaboð: