Á laugardaginn, 3. október, efna Græna netið, Fuglavernd og Landvernd til vettvangs-ferðar í Grunnafjörð að skoða friðland fugla og hugsanlegar vegaframkvæmdir. Ferðin hefst kl. 10:00 og komið aftur í bæinn síðdegis. Leiðsögumaður er Einar Ó. Þorleifsson hjá Fuglavernd en Mörður Árnason gerir grein fyrir framkvæmdahugmyndum og áhrifum þeirra á fuglalíf og náttúrufar.

Kannaðar verða fuglaslóðir í Grunnafirði, Leirárvogi og Blautósi vestan Akrafjalls. Um er að ræða einstakt fuglasvæði þar sem þúsundir farfugla hafa viðkomu um þetta leyti árs. Vænta má mikils fjölda margæsa. Stærsti tjaldahópur landsins heldur þarna til, og að auki geta ferðalangar búist við að sjá stóra hópa af lóum og ýmsar tegundir vaðfugla.  Ernir og fálkar eru þarna tíðir gestir og nær dagleg sjón.

Grunnafjörður er friðaður og skilgreindur sem Ramsarsvæði og ný tur því alþjóðlegar verndar.  Blautós er einnig friðaður.

Undanfarin ár hafa verið uppi hugmyndir um vegagerð á svæðinu með brú yfir ós Grunnafjarðar. Fyrrverandi umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, féllst ekki á slíkar ráðagerðir í skipulagi sveitarfélaganna við svæðið í ágúst 2007 og varð því ekki úr framkvæmdum en fyrir nokkru kynnti Vegagerðin síðan nýjar tillögur um að leggja hringveginn yfir Grunnafjarðarós. Í ferðinni verður gerð grein fyrir þessum hugmyndum og áhrifum hugsanlegra framkvæmda á fuglalíf og náttúrufar á svæðinu.

Farið verður frá BSÍ á laugardaginn, 3. október kl. 10:00 og er áætlaður komutími til Reykjavíkur aftur milli 16 og 17. Upplýsingar um þátttökugjald og skráning í netfanginu sigrun.pals@simnet.is og í síma 866 9376 (Sigrún) fram á föstudag.

Ferðalöngum er ráðlagt að taka með kíki og fuglabók ef til er, og nesti til ferðarinnar. Stutt stopp verður gert á Akranesi ef óskað er.

Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
30. september 2009
Tilvitnun:
Sigrún Pálsdóttir „Vettvangsferð Græna netsins í Grunnafjörð“, Náttúran.is: 30. september 2009 URL: http://nature.is/d/2009/09/30/vettvangsfero-graena-netsins-i-grunnafjoro/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: