Nýr forseti á leið í Hvíta húsið með fangið fullt af fyrirheitum í umhverfis-, orku- og efnahagsmálum og hefur sett úrvalsfólk til verka. – Hver er stefnan? Hvað verður úr? Hvaða áhrif hafa breytingarnar vestra á heimsbyggðina – og Ísland?

Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, og Karl Blöndal, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins verða málshefjendur á fundi Græna netsins um Obama og umhverfið í kaffihúsinu Glætunni, Laugavegi 19 (gegnt Máli og menningu)  á laugardaginn 10. janúar frá kl. 11:00.

Kjörinn Bandaríkjaforseti vakti mikla athygli í kosningabaráttunni fyrir einarða afstöðu í umhverfismálum, sama hvort borið er niður í baráttu gegn loftslagsvá, í orkumálum eða almennri náttúruvernd. Fréttir af mannaskipan og öðrum undirbúningi valdatökunnar benda til þess að Obama hafi fullan hug á að standa við fyrirheit sín í þessum efnum. Þar verður þó við ramman reip að draga – stórfyrirtæki, íhald og ýmis hagsmunaöfl innan þings og utan.

Á fundinum á laugardag tala tveir kunnáttumenn um umhverfismál og bandarísk stjórnmál um stefnumið Obama og líkur á því að hann komi þeim í framkvæmd. Einnig má vænta umræðna um áhrif breyttrar stefnu vestra á íslensk stjórnmál – þar sem umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins hefur ekki síst mótast af nánum kynnum við kenningasmiði repúblikana í Bandaríkjunum.

Allir eru velkomnir á fund Græna netsins í Glætunni.

Birt:
8. janúar 2009
Höfundur:
Græna netið
Tilvitnun:
Græna netið „Græna netið fundar um Obama og umhverfið“, Náttúran.is: 8. janúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/01/08/obama-og-umhverfio/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: