Í forsíðuumfjöllun bandaríska fréttavikuritsins Newsweek um „umhverfismál og forystu“ segir að þeir leiðtogar landa heims sem vilji sýna og sanna að þeim sé alvara með að vilja framfylgja nútímalegri umhverfisverndarstefnu hefðu gott af því að „líta í norður“ til Íslands.
„Á Íslandi, landi sem er betur þekkt fyrir þorsk en nýjustu umhverfistækni, koma 80 prósent orkunotkunar frá endurnýjanlegum orkugjöfum, vatnsafls- og jarðhitavirkjunum,“ segir þar. Rakið er að þetta sé afrakstur áratuga uppbyggingar og nú vilji íslenska ríkisstjórnin flytja þessa þekkingu á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa út.
Með stuðningi stjórnvalda séu íslensk fyrirtæki að fara með sérþekkingu sína á þessu sviði til staða eins og Djíbútí, Kína og Suður-Kaliforníu.
„Þótt Ísland kunni með ríkulegum náttúrulegum orkulindum sínum og fáu íbúum að vera í einstakri aðstöðu gætu leiðtogar annarra þjóða fengið eina eða tvær góðar hugmyndir með því að bóka far til Reykjavíkur,“ skrifar Newsweek.
Blaðið segir íslensku ríkisstjórnina fjárfesta í rannsóknum sem miða að því að efla sérþekkingu Íslendinga á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Hins vegar er sagt vera spurningarmerki yfir því að hve miklu leyti önnur lönd geti leikið það eftir sem gert hefur verið hér á landi, einkum að því er varðar nýtingu jarðhita.
Í greininni er einnig rakið hvernig umhverfismál og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum hafa stórlega vaxið að mikilvægi í hugum kjósenda út um allan heim. Sú hugarfarsbreyting þrýsti á stjórnmálaleiðtoga, þar á meðal George W. Bush Bandaríkjaforseta, að koma sér upp „grænum trúverðugleika“.