Einstaklingar tilbúnir til að leggja meira að mörkum til umhverfismála

Fjórir af hverjum fimm íbúum rúmlega tuttugu landa segjast reiðubúnir til að færa persónulegar fórnir í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, samkvæmt nýrri skoðanakönnun BBC. 22.000 manns tóku þátt í könnuninni sem framkvæmd var í 21 landi en könnunin fór á meðal annars fram í Bandaríkjunum og Kína þar sem losun gróðurhúsalofttegunda er mest miðað við mannfjölda. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Samkvæmt könnuninni telja 83% aðspurðra að einstaklingar verði að draga úr neyslu sinni til að hægt sé að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Þá segjast þrír af hverjum fjórum þátttakendum í könnuninni styðja orkuskatta að því tilskyldu að þeim verði varið til rannsókna á umhverfisvænum orkugjöfum.

Það vekur athygli að mestur er stuðningurinn við orkuskatta á meðal Kínverja. Íbúar Ítalíu og Rússlandi skera sig hins vegar úr að því leyti að flestir þeirra telja ekki nauðsynlegt að grípa til orkuskatta í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Matt McGrath, sérfræðingur BBC, segir niðurstöður könnunarinnar sýna að almenningur í mörgu löndum sé tilbúnari til að leggja meira að mörkum í umhverfismálum en stjórnmálamenn virðist gera sér grein fyrir.

Sjá frétt Mbl.is. „Einstaklingarnir láta til síns taka“. Grafík: Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is
Birt:
5. nóvember 2007
Tilvitnun:
Náttúruverndarsamtök Íslands „Einstaklingarnirnir láta til sín taka“, Náttúran.is: 5. nóvember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/11/05/einstaklingarnirnir-lta-til-sn-taka/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: