Gervitré á Íslandi? - BBC fjallar um CarbFix rannsóknarverkefnið
Breski fréttaþátturinn Newsnight fjallaði ný verið um CarbFix rannsóknarverkefnið við Hellisheiðarvirkjun og spurði meðal annars hvort gervitré, sem binda koltvísýring beint úr andrúmsloftinu, færu að skjóta rótum á íslenskum hraunbreiðum. CarbFix verkefnið miðar hins vegar að því að kanna fþsileika þess að binda koltvísýring úr jarðhitagufu sem kristalla í basaltjarðlögum. Orkuveita Reykjavíkur stendur straum af stærstum hluta kostnaðar við verkefnið og eru samstarfsaðilar fyrirtækisins Háskóli Íslands, Columbia háskóli í Bandaríkjunum og Rannsóknarráð franska ríkisins í Toulouse.
Í þættinum er rætt við Wallace Broecker, sem er brautryðjandi í rannsóknum og umræðu um loftslagsvandann. Broecker situr í vísindanefnd CarbFix verkefnisins. Þá er rætt við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, og Hólmfríði Sigurðardóttur, sviðsstjóra nýsköpunar og þróunar hjá Orkuveitu Reykjavíkur, en hún er jafnframt verkefnisstjóri CarbFix. Þá eru teknir tali aðilar sem lýsa efasemdum um kolefnisförgunarverkefni almennt og telja þau draga um of athyglina frá því að frekar þurfi að taka á olíuþorsta heimsbyggðarinnar.
Í verkefninu er koltvísýringur leystur upp í vatni undir þrýstingi og vökvanum dælt niður um borholur í Svínahrauninu. Umfangsmiklar undirbúningsrannsóknir hafa þegar verið gerðar á grunnvatnsstraumum á svæðinu í tengslum við verkefnið og sérstaklega athugaðir straumar frá borholunum sem á að nýta. Gert er ráð fyrir að á næsta ári hefjist niðurdæling koltvísýringsblöndunnar frá virkjuninni.
Þá má einnig benda umfjöllun Morgunblaðsins síðastliðinn laugardag um verkefnið og skyld verkefni.
Umfjöllun Newsnight á BBC.
Heimasíða CarbFix.
Heimasíða Orkuveitu Reykjavíkur.
Umfjöllun um jarðvarmavirkjanir á Fræðsluvef Orkuveitu Reykjavíkur.
Birt:
Tilvitnun:
Orkuveita Reykjavíkur „Gervitré á Íslandi? - BBC fjallar um CarbFix rannsóknarverkefnið“, Náttúran.is: 10. nóvember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/11/10/gervitre-islandi-bbc-fjallar-um-carbfix-rannsoknar/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.