Samkomulag Íslands og Evrópusambandsins í loftslagsmálum
Ráðherraráð Evrópusambandsins ákvað á fundi sínum í dag að ganga til samninga við Ísland um fulla þátttöku Íslands í aðgerðum ESB til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eftir 2012, en þá lýkur fyrsta skuldbindingartímabili Kýótóbókunarinnar. Með bréfi dagsettu 3. júní sl. til formennskuríkis og framkvæmdastjórnar ESB óskaði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra eftir því að grundvöllur slíks samkomulags yrði kannaður.
Með samþykkt ákvörðunarinnar er framkvæmdastjórn ESB falið að leggja fram tillögu að samningi við Ísland um sameiginlega framkvæmd á markmiðum ný s loftslagssamnings, sem verði fullgiltur jafnhliða nýjum alþjóðlegum loftslagssamningi. Slíkur samningur á milli Íslands og ESB á að vera í samræmi við ákvæði og markmið orku- og loftslagsáætlunar ESB. Texti samþykktar ráðherraráðsins fylgir með í viðauka á ensku.
Á grundvelli EES samningsins mun stór hluti losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi falla undir viðskiptakerfi ESB frá og með 1. janúar 2013. Þar er m.a. um að ræða alla losun frá stóriðju, og er reiknað með að rúmlega 40% af allri losun á Íslandi verði úthlutað innan viðskiptakerfis ESB frá þeim tíma. Að óbreyttu þyrfti þessi losun einnig að uppfylla skuldbindingar Íslands í væntanlegu nýju alþjóðlegu samkomulagi eftir 2012. Það væri flókið fyrir Ísland og íþyngjandi að þurfa að taka á sig tvíþættar skuldbindingar, í gegnum alþjóðlegt samkomulag annars vegar og EES-samninginn hins vegar. Með sameiginlegum skuldbindingum Íslands og ESB gagnvart nýju alþjóðasamkomulagi eftir 2012 er komið í veg fyrir slíkt og tryggt að sömu reglur munu gilda fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju á Íslandi og í öðrum ríkjum á evrópska efnahagssvæðinu. Með þessu fyrirkomulagi verður ekki þörf á sérákvæðum varðandi stóriðju eða aðra geira á Íslandi eftir 2012, en slíkum sérákvæðum fylgja jafnan ókostir.
Á fundi ríkisstjórnar Íslands sl. föstudag var umhverfisráðherra gefin heimild til að styðja samningsmarkmið ESB um allt að 30% niðurskurð á losun gróðurhúsalofttegunda á Kaupmannahafnarráðstefnunni – að því gefnu að samkomulag næðist um sameiginlegar skuldbindingar Íslands og ESB. Sú staða gerir Íslendingum fært að setja fram metnaðarfylltri markmið um losun en stjórnvöld hafa sett fram hingað til.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Samkomulag Íslands og Evrópusambandsins í loftslagsmálum“, Náttúran.is: 15. desember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/12/15/samkomulag-islands-og-evropusambandsins-i-loftslag/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.