Aðstandendur Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli hafa sent Skipulagsstofnun ítrekunarbréf um að niðurstaða stofnunarinnar varðandi áframhaldandi efnistöku af brún fjallsins verði kynnt sem fyrst. Magn malar sem rutt hefur verið ofan af fjallinu er nú þegar löngu komin yfir það magn sem leyfi var veitt fyrir og því hefur malarnám verið stöðvað. Vísað er til nauðsynjar þess að endurnýja leyfið og virðast aðstandendur námunnar ekki sjá nauðsyn þess að kanna þurfi umhverfisárhrif vandlega og rækilega áður en leyfi verður veitt fyrir frekari efnistöku. Að sögn eigenda jarðvinnslufyrirtækisins Vélgröfunnar ehf. hefur myndast vandræðaástand í byggingariðnaði á svæðinu vegna stöðvunar malarnáms úr Þórustaðanámu. En ekki eru allir sammála aðstandendum námunnar og verktökum sem sækja þangað efni og finnst sjónræn mengun af námunni nú þegar allt of mikil og að námugröftur af þessu tagi ætti að heyra fortíðinni til. Það er látið líta þannig út að þarna við þjóðveg 1, í almannaleið, sé einu mölina á svæðinu að finna og kynt undir hræðslu byggingaraðila um að mölin komi til með að margfaldist í verði skildi námunni verða lokað. En hér er jafnvel meira í húfi. Fagurfræðilegt gildi heils fjalls eins og Ingólfsfjalls ætti ekki að vera eitthvað sem kemur einungis landeigendum og einstaka hagsmunaaðilum við.


Myndin er tekin af námusvæðinu í febr. 2006, séð upp Ingólfsfjall þar sem mölinni er rutt niður.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
April 12, 2006
Uppruni:
Skipulagsstofnun
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Ingólfsfjallsmálið - framtíð frekari efnistöku til umfjöllunar hjá Skipulagsstofnun“, Náttúran.is: April 12, 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/21/ingolfsfjal_skiplagsstofn/ [Skoðað:Feb. 28, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 21, 2007
breytt: May 4, 2007

Messages: