Umhverfisráðuneytið mun styðja uppbyggingu og rekstur upplýsingamiðstöðvar og gestastofu á Álftanesi samkvæmt viljayfirlýsingu sem Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra skrifað undir í dag.

Sveitarfélagið Álftanes hyggst í tengslum við friðlýsingu Skerjafjarðar setja á stofn upplýsingamiðstöð sem verður hluti af fyrirhuguðu menningar- og náttúrufræðasetri á Álftanesi. Markmið með rekstri upplýsingamiðstöðvarinnar er að samflétta kynningu á náttúru Álftaness og Skerjafjarðar, svo og sögu Bessastaða og nýta hana til að efla umhverfisvæna og menningartengda ferðaþjónustu á Álftanesi og skapa með því ný atvinnutækifæri á svæðinu.

Í viljayfirlýsingunni segir einnig að umhverfisráðuneytið og Sveitarfélagið Álftanes séu sammála um að stefna að því að ljúka vinnu við friðlýsingu þess hluta sveitarfélagsins sem fyrirhugað er að verði hluti af friðlýsingu Álftaness og Skerjafjarðar samkvæmt Náttúruverndaráætlun, fyrir lok maí 2009.

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Álftaness hefur unnið ötullega að undirbúningi friðlýsingarinnar og gert áætlun um með hvaða hætti koma megi á framfæri fræðslu og kynningu hinnar sérstöku náttúru og sögu svæðisins. Umhverfisráðherra og menntamálaráðherra vilja með yfirlýsingunni sýna stuðning við stórhuga áætlanir sveitarfélagsins.

Umhverfisráðuneytið mun beita sér fyrir því að fjárveiting fáist til upplýsingamiðstöðvarinnar, í fyrsta sinn á fjárlögum ársins 2010, til rekstrar og þróunar sýningarefnis og gerðar kynningarefnis.

Samkvæmt sömu viljayfirlýsingu mun menntamálaráðuneytið beita sér fyrir fjárveitingu til safnakennslu í upplýsingamiðstöðinni ásamt fjárveitingu til þróunar á sýningarefni, í fyrsta sinn á fjárlögum ársins 2010.

Mynd: Undirritun yfirlýsingarinnar. Á henni eru Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra, Sigurður Magnússon bæjarstjóri og Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra. SÁÞ.

Birt:
9. apríl 2009
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Viljayfirlýsing um friðlýsingu og upplýsingamiðstöð“, Náttúran.is: 9. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/09/viljayfirlysing-um-friolysingu-og-upplysingamiosto/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: